136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

ummæli ráðherra og beiðnir um utandagskrárumræður.

[15:42]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég mun halda mig við umræðu um fundarstjórn forseta. Af því að fram kom hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur athugasemd við að ekki hefði farið fram utandagskrárumræða um heilbrigðismál þá er rétt að Eygló Harðardóttir bað um það fyrir nokkru síðan. Ég veit að hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur reynt að finna tíma með hæstv. heilbrigðisráðherra og mér skilst að flytja eigi skýrslu um heilbrigðismál á fimmtudaginn og ég fagna því. En í þessu sambandi vil ég benda á, af því að hér er verið að finna að fundarstjórn forseta, að ég er mjög ánægð með að á morgun skuli komast á dagskrá utandagskrárumræða sem sú er hér stendur bað um og hefur beðið miklu, miklu lengur en beiðni Sjálfstæðisflokksins um umræðu um heilbrigðismál. Það er verið að reyna að fara eftir einhverri röð í þinginu og loksins kemst umræðan um hryðjuverkalöggjöfina á dagskrá á morgun.