136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[16:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu, en vil gera athugasemdir við tvennt. Í fyrsta lagi bar hann saman viðskiptahalla Bandaríkjanna og Íslands. Ljóst er að eftir því sem lönd stækka þeim mun minni verður viðskiptahalli þeirra hlutfallslega, rökfræðilega, vegna þess að ef allur heimurinn væri eitt ríki væri enginn viðskiptahalli. Þess vegna er eðlilegt að miklu meiri sveiflur séu í viðskiptahalla Íslands og að viðskiptahalli Bandaríkjanna sé miklu minni, þannig að í raun er það sem er að gerast í Bandaríkjunum miklu ógnvænlegra en á Íslandi.

Hins vegar það að útrásarvíkingarnir hafi notað sér lágt gengi. Það þýðir að þeir hafa þurft að eiga krónur sem gáfu mjög góða vexti. (Gripið fram í: Hátt gengi krónunnar.) Ja, hátt gengi krónunnar, já eða lágt gengi á erlendri mynt. Það þýðir að þeir hafa þurft að eiga sparifé á Íslandi. Ég held að þeir hafi yfirleitt ekki átt sparifé. Hafi þeir þurft að taka lán sagði hv. þingmaður einmitt að mjög háir vextir hafi verið á Íslandi, þannig að ég held að ástæðan fyrir útrásinni hafi alls ekki verið þessi, heldur sú að menn nýttu sér gott lánsmat íslenskra banka til að taka erlend lán í útlöndum og fjárfesta í útlöndum með mjög lágum vöxtum enda var mikið framboð af peningum í heiminum og mjög lágir vextir á tímabili.