136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst sérkennilegt þegar komið er í andsvar með þeim hætti sem hv. þm. Pétur Blöndal gerir hér, sérstaklega vegna þess að hann hvorki spyr um né talar um það sem er mergur málsins, spurninguna um hvaða afleiðingar það hafði fyrir íslensku þjóðina að hafa um árabil þá gengisstefnu sem við höfðum. (Gripið fram í.) Hvaða afleiðingar hafði það? Jú, ég hef haldið því fram að það hafi haft ákveðnar afleiðingar og sé aðalorsök efnahagshrunsins sem við urðum fyrir. Ég hef haldið því fram sem aðalatriði að gríðarlega mörg íslensk heimili horfi fram á að lenda í greiðsluþroti, vegna þess að við búum við lánakerfi sem er afleiðing af ónýtum gjaldmiðli, þar sem búin er til sérstök hækja, aukakerfi, sem heitir verðtrygging. Þetta gerir það að verkum að vitlaust er gefið og ekkert réttlæti er í þjóðfélaginu. Síðan talar hv. þm. Pétur Blöndal um eintóm aukaatriði.

Mér finnst mjög mikilvægt að þeir sem bera ábyrgð á þeirri efnahagsstefnu og þeim ónýta gjaldmiðli sem haldið var uppi um árabil viðurkenni ábyrgð sína og geri sér grein fyrir því að nauðsynlegt er að fara þá leið sem við flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu höfum bent á. Að þegar verði lagt í þá vegferð að leita bestu leiða til að við getum búið við alvöru gjaldmiðil og alvöru lánakerfi, þar sem íslenskur framleiðsluiðnaður og allur almenningur í landinu getur búið við gengisöryggi. Það er mergurinn málsins í sambandi við þetta.