136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[16:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og taka undir með flokksbróður mínum sem talaði hérna á undan, Pétri H. Blöndal, og þakka flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu, hv. þingmönnum Jóni Magnússyni, Guðjóni A. Kristjánssyni og Grétari Mar Jónssyni, fyrir að leggja þetta mál fram og mæla fyrir því. Ég tel að málið sé afar athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að eitt af því mikilvægasta sem við ræðum þessa dagana er framtíðarskipan peningamálastefnu á Íslandi. Ég tel að við þær aðstæður sem uppi eru núna eftir hrun fjármálakerfisins verði ekkert hjá því komist að við Íslendingar og við sem störfum í stjórnmálunum setjumst niður og reynum að snúa saman bökum og kortleggja þá valkosti sem við höfum í gjaldmiðilsmálum til framtíðar. Ég tel að þetta þingmál sé innlegg í þá umræðu.

Ég er sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að kannski væri ástæða til þess að breyta örlítið textanum í þingsályktunartillögunni. Það sem ég vil gera er að kanna möguleika á því að tekinn verði upp alþjóðlega viðurkenndur gjaldmiðill á Íslandi með einhverjum hætti, annaðhvort einhliða eða í gegnum myntráð eða einhverja þá kosti sem í boði eru. Þá komi aðrir gjaldmiðlar til greina til viðbótar við norsku krónuna eins og bandaríkjadollar, evra, jafnvel breska sterlingspundið, eins og Daniel Hannan, þingmaður á Evrópuþinginu, benti á á vef Morgunblaðsins í gær.

Ég tók eftir því að hv. þm. Jón Magnússon fór yfir það í framsögu sinni þar sem hann mælti fyrir þessari tillögu til þingsályktunar að það væri allt Sjálfstæðisflokknum að kenna hvernig komið væri fyrir íslensku efnahagslífi. Auðvitað ber Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð á því ástandi sem uppi er og gengst fúslega við því. Ég held hins vegar að ef við erum að tala um gengismálin beri allir ábyrgð, (EyH: Ertu að koma með afsökunarbeiðni?) Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn — sem var nú í ríkisstjórn í tólf ár — bankamenn, hagfræðingar og aðrir þeir sem að þessum málum hafa komið.

Eins og menn hafa kannski tekið eftir er ekki langt síðan hagfræðingarnir dr. Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson birtu mikla skýrslu þar sem þeir fóru yfir hvað mistekist hefði í hagstjórn á Íslandi.

Í skýrslunni segir á bls. 2, með leyfi forseta:

„Allt frá vordögum árið 2001 hefur verðbólgumarkmiði verið fylgt við stjórn peningamála. Sú aðferðafræði hefur ekki staðist væntingar við að ná niður verðbólgu en hátt vaxtastig hefur hvort tveggja hvatt innlend heimili og fyrirtæki til skuldsetningar í erlendri mynt og laðað fjármagn spákaupmanna sem vildu stunda vaxtamunarviðskipti hér. Mikið innflæði fjármagns fylgdi í kjölfarið og þótt heildarupphæðin sé ekki þekkt virðist sem hún hafi numið meiru en 50% af vergri landsframleiðslu. Það verður ekki séð hvers vegna þetta vakti ekki áhyggjur yfirvalda.“

Ég vil benda á að Gylfi Zoëga, sem er höfundur þessara tilvitnuðu orða, skrifaði grein í Vísbendingu árið 2006 ásamt öðrum hagfræðingi, Tryggva Þór Herbertssyni.

Árið 2006 sögðu þessir tveir hagfræðingar, með leyfi forseta:

„Með núverandi gengisfyrirkomulagi, þ.e. fljótandi gengi, hefur hagkerfið sýnt mikinn sveigjanleika. Verðbólga hefur aukist en ekki farið úr böndunum. Fyrirtæki hafa eflst vegna eignauppstokkunar og umsvif þeirra erlendis aukist til muna og aukið framboð lánsfjár til heimila hefur gert þeim kleift að kaupa ýmsar varanlegar neysluvörur sem ættu að auka velferð almennings. Niðurstaða okkar er að Íslendingum sé betur borgið með núverandi fyrirkomulagi í gengismálum en með því að taka upp fastgengisstefnu og ganga í evrópska myntsamstarfið.“

Þarna kvað við annað tón en í skýrslunni sem Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson sendu frá sér nýverið. Ég vitna til skrifa þessara tveggja hagfræðinga til þess að benda á að í hagfræðiheiminum hafa ýmsir spekingar lagt það sama til umræðunnar og það sem hv. flutningsmaður tillögunnar bar Sjálfstæðisflokknum á brýn í ræðu sinni.

Það er auðvitað ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er: Hvernig eigum við að stíga næstu skref í gjaldmiðilsmálum okkar? Eins og ég sagði áðan, herra forseti, er mjög mikilvægt að menn og íslensk stjórnvöld marki einhverja framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum, skilgreini og skoði hvaða valkostir eru í boði í gjaldmiðilsmálum.

Ég skrifaði grein í Morgunblaðið þann 4. febrúar 2009 undir yfirskriftinni „Þetta eru verkefnin“. Þar taldi ég upp átta atriði sem ég tel að séu mikilvægustu viðfangsefni stjórnvalda nú um stundir og hvatti nýja ríkisstjórn til þess að beita sér fyrir þeim verkefnum fram að kosningum. Eitt þessara atriða sem ég nefndi var gjaldmiðillinn og framtíðarskipan gjaldeyrismála.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Marka þarf skýra framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum á Íslandi. Fólkið og fyrirtækin eiga heimtingu á því að vita hvert stefnir í gjaldmiðilsmálum. Í dag ríkir mikil óvissa um það. Íslenska krónan hefur reynst okkur fjötur um fót og á það höfum við verið óþyrmilega minnt á síðustu mánuðum. Forðast ber í lengstu lög að draga á lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að verja gengi krónunnar. Með því er hætt við að lánsféð brenni á heitu báli en eftir sitji komandi kynslóðir með óbærilegan skuldaklafa á bakinu til langrar framtíðar. Mikilvægt er að stjórnvöld fái færustu sérfræðinga sem völ er á til þess að skoða með markvissum hætti þá valkosti sem bjóðast í gjaldmiðilsmálum, einkum einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils á Íslandi samhliða öðrum kostum. Að þeirri skoðun lokinni ættum við að vera í stakk búin til þess að taka ákvörðun um framtíðarskipan gjaldmiðilsmála á Íslandi.“

Ég tel að sú þingsályktunartillaga sem er til umfjöllunar sé innlegg í þessa umræðu, innlegg í að útbúin og mynduð verði framtíðarstefna í gjaldmiðilsmálum. Reynsla okkar hefur sýnt að krónan hefur reynst okkur fjötur um fót. Við þurfum að skoða alla þá valkosti sem í boði eru í gjaldmiðilsmálunum. Samfylkingin og hv. þm. Helgi Hjörvar, sem er hérna í salnum, hafa talið að sú lausn sem sé handan við hornið fyrir okkur Íslendinga sé innganga í Evrópusambandið með upptöku evru. Ég hef hins vegar talið að sú leið sé ekki góð fyrir okkur Íslendinga vegna þess að með því þyrftum við að afsala okkur réttindum yfir auðlindum. Það eru ýmsir aðrir ókostir sem fylgja Evrópusambandsaðild. Ég viðurkenni hins vegar að það fylgir henni líka kostur sem er gjaldmiðillinn.

Gallinn við Evrópusambandsleiðina og upptöku evru á grundvelli aðildar er sá, eins og Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, lýsti í viðtali við ríkissjónvarpið í nóvember sl., að Íslendingar fengju inngöngu í Evrópusambandið eftir fjögur ár. Til þess að ríki geti tekið upp evru á grundvelli Evrópusambandsaðildar þurfa þeir að hafa verið aðilar að Evrópusambandinu í tvö ár, sem þýðir að Íslendingar gætu ekki tekið upp evru fyrr en í fyrsta lagi eftir sex ár. Þó er það mjög ólíklegt vegna þess að eins og staðan er núna í íslenskum efnahagsmálum mundum við eiga mjög erfitt með að geta uppfyllt Maastricht-skilyrðin sem Evrópusambandið setur fyrir því að evran verði tekin upp. Ég er því ekki viss um að að liðnum þessum sex til átta, níu árum verði mikið eftir af hagkerfinu hér á landi ef ekkert verður að gert. Ég hef því efasemdir um að fólkið og fyrirtækin í landinu hafi tíma til þess að bíða svo lengi eftir því að einhver varanleg lausn komi á gjaldmiðilsmálum okkar.

Ég hef sjálfur lagt mikla vinnu í að skoða möguleika í samráði við innlenda og erlenda sérfræðinga á því að tekinn verði upp alþjóðlegur gjaldmiðill einhliða, annaðhvort til skamms tíma með aðra heildarlausn í boði til framtíðar, eða hugsanlega að komið verði á myntráði líkt og gert var í Hong Kong og komið var á árið 1983. En aðalatriðið er að menn nálgist þessi mál með opnum huga, (Forseti hringir.) útiloki ekki neina möguleika og reyni að koma sér saman um skýra framtíðarstefnu í peningamálum á Íslandi.