136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[16:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu og tillögu þingmanna Frjálslynda flokksins um þetta efni. Umræðuefnið er brýnt en þó get ég tekið undir það með hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að umræðan hefur ekki þokast ýkja mikið, og sérstaklega ekki þegar horft er til þess að sú gjaldeyriskreppa sem hér varð varð til þess að gera fjármálakreppu okkar miklu dýpri og erfiðari og fækka þeim tækjum og bjargráðum sem við höfum til þess að vinna okkur út úr kreppunni. Vegna þess að við búum við, eins og hver maður segir nú á eftir öðrum, illa laskaðan ef ekki ónýtan gjaldmiðil sem verja þarf með mjög þröngum reglum, sem settar eru hér í þinginu, um gjaldeyrisviðskipti. Það er því mikilvægt að hreyfa öllum þeim möguleikum sem menn telja sig sjá.

Það hefur svo sem ekki farið fram hjá neinum, hygg ég, að allt frá stofnun Samfylkingarinnar höfum við lagt á það áherslu að Ísland eigi að taka virkari þátt í Evrópusamstarfinu. Við eigum að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið, gerast aðili að því og að stofnunum þess og þar á meðal að myntbandalaginu og evrunni — það sé í rauninni eina framtíðarlausn sem við eigum í þessum efnum.

Það er býsna mikilvæg framtíðarlausn vegna þess að í dag erum við í raun og veru í tvöfaldri kreppu. Við erum annars vegar í efnahagslægð, sem leikur samfélagið á hverjum einasta degi ákaflega grátt, en á sama tíma keyrum við á þetta sama samfélag, sem er í miklum samdrætti, ofurháa vexti — nærri 20% vexti, m.a. vegna þeirrar gjaldeyriskreppu sem hér er — og gerum þannig atvinnufyrirtækjunum, sem þó standa illa fyrir, erfiðara um vik að halda úti starfsemi sinni og atvinnu í landinu.

Gríðarlegur ávinningur hefði því verið af því að búa að sterkri mynt, að öflugum seðlabanka sem bakhjarli, að vaxtastigi og stöðugleika eins og tíðkast hjá siðmenntuðum þjóðum, sem við hefðum fengið með því að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið og taka upp evruna. Ég held að flestir séu orðnir á því að aðrar leiðir eru ekki nema um hálfan veg. Við getum ekki fest krónuna okkar við einhverja aðra mynt vegna þess að við eigum einfaldlega ekki fjármuni til þess að standa á bak við það.

Ég held að hugmyndir um að önnur ríki taki að sér að ábyrgjast íslenskt efnahagslíf, eftir það hvernig við höfum hegðað okkur á undanförnum missirum, verði að teljast býsna óraunhæfar. Ekki síst þegar við horfum til þess að sú fyrirgreiðsla sem Íslendingar geta vænst hjá öðrum þjóðum er takmarkað lánsfé sem veitt er fyrir milligöngu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem á mannamáli þýðir að aðrar þjóðir vilja ekki snerta við efnahagnum nema fyrir milligöngu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hvað þá að fara að ábyrgjast hagkerfið eða veita baktryggingu fyrir því sem við ætlum að gera hér á næstu missirum.

Ég held að menn muni nú horfa til þess hvernig við bregðumst við eftir hrunið og bíða og sjá hvort við ætlum að læra af því sem við höfum farið í gegnum, auk þess sem á stundum getur beinlínis verið óskynsamlegt að tengja okkur við aðra mynt, til að mynda norsku krónuna. Því eins og fram hefur komið hjá Norðmönnunum þá stjórnast hún að yfirgnæfandi leyti af olíunni sem vegur svo gríðarlega þungt í efnahag þeirra.

Þó það sé út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, eins og margt annað, að um orkuframleiðslu sé að ræða blandast engum hugur um það sem annars vegar hefur skoðað þróun raforkuverðs á heimsmarkaði og hins vegar þróun olíuverðs að þar er himinn og haf á milli. Þegar olíuverð margfaldaðist á síðasta ári var það rétt svo að raforkuverð, bæði austan hafs og vestan, hafi hækkað um 5, 10 eða 15% — á sama tíma og sveiflur í olíuverði voru í mörg hundruð prósentum. Það er því ólíku saman að jafna. Ef menn ætla að leita í einhverjar hagsveiflur sem nálgast efnahaginn hér þá taka menn ekki upp norsku krónuna jafnvel þó að svo ólíklega vildi til að það stæði til boða.

Nei. Ég held að allar þessar vangaveltur okkar — sem ég álít málefnalegar og sjálfsagt að menn fari í gegnum, og hef sjálfur oft farið í gegnum — lýsi að mörgu leyti því einkenni á okkur að við erum alltaf að leita að skemmri skírn. Við Íslendingar erum einhvern veginn alltaf að leita að styttri leið, hvort ekki sé hægt að fara yfir móann í staðinn fyrir að fara lengri leiðina um veginn. Það er hluti af þeirri ógæfu sem við höfum ratað í, að fara ekki einfaldlega lengri leiðina, axla þá ábyrgð sem þarf að axla og taka þann tíma í hlutina sem þarf að taka.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði hér áðan að sex eða átta ár væru langur tími í því að taka upp evruna. Ég tók til gamans með mér forsíðu Fréttablaðsins eftir að við höfðum verið á fundi hjá Heimssýn, ég, hv. þm. Geir Hilmar Haarde og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon, og rætt um evruna. Samfylkingin vill ein taka upp evruna, segir þar. Og hvert er ártalið? Ártalið er 2003. Það eru liðin sex ár frá því þetta var. Sex ár eru ekki langur tími auk þess sem ýmsir sem þekkja vel til þeirra kosta sem bjóðast í Evrópusambandsviðræðum telja að jafnvel mætti komast hraðar inn í EMR2 þó að ég telji það ekki aðalatriðið.

Við Íslendingar verðum að horfast í augu við það að við erum ekkert á leið út úr þessari fjárhagskreppu eftir eitt ár eða tvö ár. Staðreyndin er einfaldlega sú að hér eru mörg erfið ár fram undan. Við eigum að horfast í augu við það og stefna að raunverulegum framtíðarlausnum. Þar eru auðvitað pólitískt séð tveir kostir. Það er sá kostur að verða hluti af hinu evrópska samstarfi, taka fullan þátt í skrifræðinu þar sem skiptir máli þegar markaðir bresta, skrifræðinu sem vantaði þegar á bjátaði hjá okkur, og tökum þátt í myntsamstarfinu til þess að fá gjaldmiðil sem við getum notað og okkur hefur skort þó að það taki langan tíma.

Hinn kosturinn er sá að verða bara dollaravætt smáríki. Ýmsar smáþjóðir í heiminum hafa tekið þann kostinn að taka upp stóran gjaldmiðil frá öðru ríki, oft og einatt frá Bandaríkjunum, dollara. En menn skulu ekki láta sér detta í hug að það þýði að þeir fái vaxtastig eða lánsfjárframboðið sem í gildi er á Bandaríkjamarkaði. Því það Mið-Ameríkuríki sem áður var nefnt býr við 12% vaxtastig. Það eru ekki vextirnir í Bandaríkjunum. Nei. Menn krefjast auðvitað miklu hærri vaxta á dollara sem lánaður er í dollaravæddum smáríkjum en krafist er á mörkuðunum í Bandaríkjunum.

Í sjálfu sér er því ósköp takmarkaður ávinningur af því að fara í slíka upptöku á gjaldmiðli, við þurfum ekki slíkt vaxtastig sem dollaravæddu smáríkin, mörg hver, búa við. Við þurfum að komast inn í virkt alþjóðlegt samstarf. Við þurfum að hafa aðgang að sterkum og öflugum seðlabanka. Við þurfum að hafa mynt og framboð af fjármagni sem er á skynsamlegum kjörum til langs tíma til þess að geta byggt hér upp öflugt atvinnulíf og unnið okkur út úr þeim miklu erfiðleikum sem skammsýni okkar, og tilhneiging til þess að reyna alltaf að fara styttri leiðina, eða komast undan skrifræðinu, hefur leitt okkur í.