136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt með því að ganga í Evrópusambandið erum við að fórna því að geta tekið upp evru, hugsanlega einhliða eða þá í sérstöku samkomulagi við Evrópusambandið án þess að ganga inn, það væri líka möguleiki. Við erum með Schengen-samkomulag og það er hægt að gera alls konar samkomulag og Evrópusambandið gæti örugglega, ef það vildi okkur vel, gert undantekningu á því að við gætum tekið upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið.

Hv. þingmaður sagði að við værum búin að skuldsetja okkur mikið. Ég vil taka það fram að Icesave-reikningarnir og innlánstryggingarsjóður á Íslandi eru reglur Evrópusambandsins, regluverk Evrópusambandsins sem við tókum upp að fullu og fullkomlega, þeirra reglur, og það reyndist vera galli í þeim. (JM: Íslensk lög.) Það er galli í þeim reglum sem felst í því að það er sama í hvaða Evrópusambandslandi það væri, ef Holland missti 80% af sínum bönkum á einni viku gætu þeir ekki staðið við innlánsreikninga sína. (Gripið fram í.)

Það sem var galli í reglunum, herra forseti, — ef ég fæ frið — er að Evrópusambandið átti að sjálfsögðu að hafa einn innlánstryggingarsjóð fyrir allt Evrópusambandið sem bankarnir borguðu inn í. Þá hefði þetta ekki riðið Íslendingum að fullu. Það var galli í Evrópusambandsreglunum sem við tókum upp, það má kannski segja að Alþingi Íslendinga hefði átt að sjá við þessu — sem allar hinar þjóðirnar sáu ekki — það getur vel verið. En þarna var galli í Evrópusambandsreglunum sem við erum að blæða fyrir með þrýstingi frá þeim því að sjálfsögðu áttum við ekki að borga þetta umfram það sem er í innlánstryggingarsjóðnum, sem eru 18 milljarðar.