136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:16]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Herra forseti. Fyrir tveimur árum lauk störfum nefnd sem ég leiddi, Evrópunefnd, sem fjallaði frá miðju ári 2004 til ársbyrjunar 2007 um Evrópumálefnin og gaf síðan út skýrslu. Í þeirri skýrslu er tekið á öllum þáttum samstarfs okkar við Evrópusambandið og m.a. fjallað um evruna.

Það verður að segja þá sögu eins og hún er að í störfum nefndarinnar beindist athygli nefndarmanna ekkert sérstaklega að þessu viðfangsefni og það var ekki það sem við töldum brýnast að ræða á þeim tíma í tengslum okkar við Evrópusambandið. Í skýrslu nefndarinnar eru rakin sjónarmið og m.a. bent á að hingað hafi komið fulltrúi frá Seðlabanka Evrópu sem flutti erindi í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann fullyrti að það stæðist ekki samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að Íslendingar tækju einhliða upp evru. Segja má að þetta sé það sjónarmið sem kemur fram í skýrslu nefndarinnar. En ég tel að sú tillaga sem flutt er til þingsályktunar um að fela ríkisstjórninni að rannsaka þetta mál sérstaklega eigi fullan rétt á sér. Það yrði náttúrlega ekki tekin ákvörðun um að tengja íslensku krónuna við aðra mynt, hvorki norska krónu né aðra nema það yrði rannsakað og fyrir lægju hagfræðilegar niðurstöður og athuganir sem væru því til stuðnings að taka þessa ákvörðun. Það hefur komið fram t.d. í þeim umræðum sem orðið hafa núna og kom líka fram þegar við kölluðum sérfræðinga fyrir okkur í Evrópunefndinni á sínum tíma, þeir gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum, að það var ógerningur fyrir nefndarmenn að fóta sig á neinu einu atriði varðandi íslensku krónuna, evruna og þróun gjaldmiðilsmála.

Það má segja að þegar litið er til baka geti menn spurt: Hvers vegna kom það ekki fram í hinni ítarlegu skýrslu nefndarinnar að sá galli væri á gjöf Njarðar, þ.e. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, að það gæti leitt til þess að við stæðum í þeirri stöðu sem við stöndum núna vegna þess að við gerðumst aðilar að samningnum og tókum upp regluverk hans án þess að það kerfi væri innbyggt sem hefði komið í veg fyrir eða gefið mönnum vísbendingu um að hætta væri á ferðum við hrun bankakerfis? Ég tek alfarið undir orð hv. þm. Péturs H. Blöndals hér áðan um að hvort sem við værum í Evrópusambandinu eða hefðum þann samning sem við höfum núna stæðum við í sömu sporum og hefðum orðið fyrir því áfalli sem við urðum fyrir. Það er ekkert sameiginlegt kerfi innan Evrópusambandsins sem leiðir til þess að þjóðir séu varðar fyrir hruni á bankakerfi eins og varð hjá okkur.

Það er ekki hægt að ræða um evruna eins og gert hefur verið án þess að vekja máls á því að innan evrusvæðisins, meðal þeirra 16 ríkja sem eru með evru, ríkir gífurleg togstreita og vandræði. Það liggur alls ekki ljóst fyrir í þeirri stöðu sem þessar þjóðir eru núna í að lausn verði fundin á þeirra málum, að evran standi eftir óhögguð eða efnahagssamstarf þeirra.

Tökum t.d. Íra, hlustum á hvað írskir þingmenn segja. Þeir segja alveg það gagnstæða við það sem menn segja hér þegar þeir standa upp og fullyrða að evran hefði bjargað okkur. Á sama tíma og við hlustum á umræðuna hér flytja þingmenn ræður á írska þinginu um að það sé einn helsti bölvaldur Íra við núverandi aðstæður að þeir hafi tekið upp evruna. Það er sjónarmið sem á hljómgrunn meðal Íra. Í umræðum á Írlandi heyrist að Írar væru betur settir án evrunnar. Í þessum málum eru menn því að leita að leiðum og skýringum og velta fyrir sér úrræðum hvort sem þeir eru innan evrusvæðisins eða utan. Evran er ekki svar við öllum vanda að því er þetta varðar. Það er ekki hægt að fullyrða eins og gert hefur verið á afdráttarlausan hátt að við værum betur sett ef við hefðum verið á evrusvæðinu en utan þess.

Eftir að ég lauk formennskuhlutverki mínu í nefndinni hef ég fylgst með umræðum um gjaldmiðilsmálin. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ef litið er á þetta mál lögfræðilega og samskipti okkar við Evrópusambandið sé ekki hægt að líta á það sem einhverja ögrun við Evrópusambandið að við veltum fyrir okkur að taka upp evru án þess að vera aðilar að Evrópusambandinu. Evrópusambandið hefur heimild til þess að semja við þriðju ríki um samstarf í gjaldmiðilsmálum. Sá lögfræðingur sem hvað best er að sér um samskipti okkar við Evrópusambandið, Stefán Már Stefánsson prófessor, hefur bent á að lögfræðilega sé unnt að tengjast þessu. Hann hefur bent á það ásamt hagfræðiprófessornum Guðmundi Magnússyni. Þeir hafa bent á ákveðna leið og ekki er hægt að fullyrða að það sé afdráttarlaust brot á samskiptum okkar við Evrópusambandið að taka upp evru.

Ég tel að auðvitað ætti að reyna það fyrst í samningum við Evrópusambandið ef menn hefðu áhuga á því og á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það væri auðveldasta leiðin fyrir okkur og stysta leiðin fyrir okkur að gera það og fá þannig þriðju stoðina í samskiptum okkar við Evrópusambandið en fyrir höfum við Schengen-samkomulagið og EES-samkomulagið. (Gripið fram í.) Það hefur ekki reynt á það pólitískt, það hefur engin stefna verið mótuð um þetta efni af yfirvöldum hér á landi. Ríkisstjórnin hefur ekki mótað neina stefnu í þessu. Ríkisstjórnin hefur aldrei farið með það sem fullmótaða stefnu af sinni hálfu og lagt það fyrir Evrópusambandið. Það er á þessum rökum og með skírskotun til þessara ákvæða í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem unnt er að taka þetta mál upp. Bæði í inngangi hans og í ákveðnum greinum hans eru ákvæði sem hægt er að vísa til ef menn hafa hug á að gera þetta.

Ég tel að vandinn sem orðinn er núna sé sá að menn hafa viljað skauta fram hjá öllum svona rökum af því að þeir vilja nota evruna til þess að troða okkur inn í Evrópusambandið og koma okkur þar á bás með öðrum ríkjum og afsala okkur þar með yfirráðunum yfir auðlindum Íslands í hafinu og kippa grundvellinum undan landbúnaði á Íslandi. Það á að gera og nota á evruna sem gulrót til þess að vinna þessum málflutningi fylgis meðal þjóðarinnar.

Í ljós hefur komið í þessum umræðum sem orðið hafa að það er minnkandi stuðningur við það sjónarmið. Eftir því sem málin eru rædd betur átta menn sig á því að þetta eru tvö aðskilin mál, annars vegar spurningin um hvaða gjaldmiðil við viljum hafa og hvort við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Þannig á að halda á málinu. Ég tel að tillagan gangi í þá átt að greina þar á milli, að þetta sé kannað á einhliða hátt án þess að það sé tengt aðild að Evrópusambandinu. Að því leyti er þetta tillaga sem byggist á því sjónarmiði sem ég hef haldið fram, að þarna sé hægt að skilja á milli annars vegar spurningarinnar um aðild að Evrópusambandinu og hins vegar spurningarinnar um hvaða gjaldmiðill eigi að vera hér í landi.

Það vantar hina skýru hagfræðilegu niðurstöðu sem segir okkur að nú sé skynsamlegasta úrræðið fyrir okkur að leggja af krónuna og tengja okkur við annan gjaldmiðil eða taka upp annan gjaldmiðil. Ég tel að ríkisstjórnin ætti að fara að því sem hér segir, að rannsaka það og leggja fyrir þingið ákveðna tillögu um það efni sem yrði rökstudd og rannsökuð af hálfu sérfróðra manna. Slík heildarathugun hefur því miður ekki farið fram.