136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Tilskipun Evrópusambandsins varðandi innstæðutryggingar er þess eðlis að hvert land myndar sinn sjóð og það er engin tenging þar á milli. Það er vandinn, frú forseti.

Holland, Bretland og Írland eru með geysilega mikið bankakerfi sem starfar erlendis, Lúxemborg sömuleiðis. Ef þessi lönd lentu í því, t.d. Holland, að 80% af bönkunum lentu í vandræðum á einni viku gætu þeir ekki borgað innstæður, hvorki í Hollandi né um alla Evrópu því að hollenskir bankar eru með mikið af innstæðum í Bretlandi, þannig að innstæðutryggingarkerfið dygði bara ekkert þar frekar en hér.

Ef Bretar lentu í því, sem ég vona að gerist nú ekki því að það yrði skelfilegt að þeirra bankar féllu, þó að það væri ekki nema helmingurinn af þeim, ég ætla ekki að gefa fyrir það hvernig þeir ætluðu að standa við sínar innstæður í Bretlandi og um alla Evrópu. Það gæti orðið hart á dalnum.

Að þessi innstæðutrygging skuli hafa klikkað er ekkert séríslenskt fyrirbæri, alls ekki, það er galli í innstæðutryggingunni. Þar átti að sjálfsögðu að geta þess sem ég hef nefnt áður að það átti að vera einn sjóður fyrir alla Evrópu, ef ekki allan heiminn, og sá sjóður ætti að fá iðgjöld frá öllum bönkum í heiminum og hann ætti að hafa eftirlit með innstæðum þannig að ef menn bjóða of háa innlánsvexti geti sjóðurinn stöðvað innlánin. Þá hefði hann stöðvað Icesave í Hollandi. Auk þess þarf að setja reglur um að innstæðutryggingar hafi forgang í þrotabú eins og Íslendingar gerðu í neyðarlögunum. Það þarf að setja í reglugerð Evrópusambandsins. Þessar viðbætur þarf að gera í Evrópusambandinu.