136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sá ekki að það væri í sjálfu sér neinn ágreiningur eða að þetta væri beinlínis andsvar við því sem ég hafði fram að færa áðan, en ég vil taka undir þá framtíðarhugsun hv. þm. Péturs H. Blöndals að gott væri ef einn tryggingarsjóður gæti verið fyrir allan heiminn og þá væntanlega líka sameiginleg mynt fyrir allan heiminn. Að sjálfsögðu væri mjög gott ef um það gæti verið að ræða en það líður sennilega á löngu þar til svo verður.

Innstæðutryggingin var sjálfsögð og regluverkið var eðlilegt. Þess var hins vegar ekki gætt að tryggja hinn endann, þ.e. að kostnaðurinn lenti ekki á skattgreiðendum. Með sama hætti erum við með alls kyns tryggingastarfsemi, við tryggjum t.d. ferðaskrifstofur þannig að ef ferðaskrifstofur geta ekki staðið undir kostnaði við það að flytja farþega heim eða að fólk hefur keypt ferðir eða hóteldvöl þá ber ríkinu að greiða af því, það er ákveðin leyfisveiting. Framan af gætti ríkið ekki að sér að hafa þá tryggingu nægjanlega háa.

Við erum að ganga í gegnum nákvæmlega sömu hluti varðandi bankana núna, að menn gættu ekki að sér. Það er í sjálfu sér ekki endilega dómur yfir regluverkinu heldur yfir því að þeir sem halda um stjórnvölinn hafi ekki passað upp á að hlutir sem eiga ekki að lenda á skattgreiðendum geri það samt.

Mér hefði fundist eðlilegra að það hefðu verið sett stífari mörk á bankana varðandi tryggingar til þess að það væri þá nægjanlegt í sjóðum þannig að kostnaðurinn lenti ekki á skattgreiðendum og það hefði vel verið hægt. Það regluverk sem var sett af Evrópusambandinu eru lágmarksreglur það mátti setja stífari reglur og varðandi löggjöfina á þeim tíma þá hefði (Forseti hringir.) hv. þm. Pétur H. Blöndal getað mælt fyrir breytingartillögu (Forseti hringir.) til þess að tryggja betur hagsmuni íslenska ríkisins og skattgreiðenda.