136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo yndislegt að vera gáfaður eftir á, ég ætla ekki að lýsa því. Já, já, auðvitað átti ég að sjá þetta allt saman sem formaður efnahags- og skattanefndar. (Gripið fram í.) Auðvitað átti ég að sjá þetta sem þingmaður. Auðvitað áttu allir að sjá þetta, það auðvitað liggur í augum uppi eftir að það hafði gerst. Það sá það bara ekki einn einasti maður fyrir að íslenska bankakerfið félli. Meira að segja eftir að tveir bankar voru fallnir sáu menn ekki einu sinni fyrir að Kaupþing mundi falla. Framsýnin var ekki meiri en það. Óvarleg orð bresks forsætisráðherra í sjónvarpi felldu Kaupþing, punktur.

Hv. þingmaður sá það nú örugglega fyrir að breski ráðherrann mundi missa þetta út úr sér. Það eru svo margir núna sem eru gáfaðir eftir á að það er eiginlega óþolandi. Menn hljóta alltaf að meta stöðuna eins og hún var á hverjum tíma.

Ég minni bara á matsfyrirtækin, ég minni á ársreikninga fyrirtækjanna, ég minni á endurskoðendur og ég minni á lánveitendur sem lánuðu íslensku bönkunum alveg heilmikla peninga. Þeir bera líka ábyrgð, það bera allir einhverja ábyrgð á þessu öllu saman.

Að segja það að ég einn beri ábyrgð á þessu öllu saman, það er kannski fullmikið, en ég skal axla mína ábyrgð. Ég átti að sjálfsögðu að sjá þetta. Ég hef svo sem bent á ýmis atriði en kannski stóð ég ekki nógu fastur á þeim. Ég átti kannski að segja af mér þingmennsku til þess að undirstrika að ég væri á móti því að gagnkvæmt eignarhald væri á milli Kaupþings og Exista. Ég hélt sérstakan fund um það í efnahags- og skattanefnd fyrir þremur árum. Ég benti líka á jöklabréfin fyrir löngu síðan í mörgum ræðum og ég hitti þá í Seðlabankanum. En ég átti kannski að segja af mér fyrst þeir fóru ekki að ráðum mínum.

Ég vildi gjarnan vera gáfaður eftir á en ég var bara svona vitlaus, nákvæmlega eins og einhver sem keypti fyrir milljarða hlutabréf í Glitni kvöldið áður en hann féll.