136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er röng aðferðafræði hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Menn eru ekki gáfaðir fyrir fram eða eftir á, annaðhvort eru menn gáfaðir eða menn eru það ekki, (PHB: Ókei, þá er ég vitlaus.) og það er bara einfaldlega þannig.

Ég er kannski þeim annmarka haldinn, ég veit það ekki, en mér finnst hv. þm. Pétur H. Blöndal vera mjög gáfaður maður, en hann sá það ekkert fyrir frekar en ég að íslensku bankarnir væru jafnskelfilega staddir og þeir voru. Ég hygg að enginn hafi gert sér grein fyrir því og það gat eiginlega enginn gert sér grein fyrir því fyrir fram. Þegar lánalínurnar lokuðust kom það verulega á óvart hvernig eignasafnið var og með hvaða hætti eiginfjármyndunin hafði verið og hafði verið sett fram undanfarin ár. Það eru bara hlutir sem þarf að vinna úr og menn þurfa að læra af og passa að gera ekki sömu vitleysuna aftur. Það hefur ekkert með það að gera að vera gáfaður fyrir fram eða eftir á.

Ég benti iðulega á ýmis vandamál í íslensku efnahagslífi en ég gat ómögulega séð fyrir að þau yrðu jafnhrikaleg og raun bar vitni og ég gat ómögulega séð það fyrir að íslenska bankakerfið mundi hrynja eins og spilaborg. Mér datt heldur aldrei í hug að íslensku bankarnir væru jafneitraðir og raun ber vitni, aldrei nokkurn tíma, og ég gat ekki ímyndað mér að bankakerfi heimsins væri jafneitrað og raun ber vitni. Það breytir hins vegar ekki því að til þess að það sé eðlilegt og nauðsynlegt traust á bankakerfi verður að vera til lágmarksneytendavernd og við verðum að gæta hennar eins og aðrir. (PHB: Miskunnarlaust.) Ég er sammála lausn hv. þm. Péturs H. Blöndals.