136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breytt skipan gjaldmiðilsmála.

178. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Illuga Gunnarssyni að öðru leyti en því sem varðar stóra skipið og litla skipið, sem hann gerði að umræðuefni fyrst í andsvari sínu. Að menn geri nú ekki ráð fyrir því að skipstjórar og þeir sem annast siglingatækni á stórum skipum séu gjörsamlega hringlandi vitlausir. Ekkert frekar en maður gerir ráð fyrir því að þeir sem stýra minni skipum séu það, heldur reyni að sigla með sem eðlilegustum hætti og sigla ekki á fullri ferð upp í harðaland heldur miða við það að hafa leiðina sem eðlilegasta.

Þessi myndlíking var ekki um annað en að þegar bjátar á er betra að um stærri heild sé að ræða en minni og ég hefði getað tekið annað sem viðmiðun.

Annað atriði sem hv. þingmaður kom inn á skiptir öllu og er grundvallaratriði. Það er sá vaxtamunur sem var. Hann talaði um að hann teldi að munurinn ætti ekki að vera meira en 3 til 4 prósentustig miðað við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Ég tel að vaxtamunurinn eigi enginn að vera.

Nú hefur t.d. Englandsbanki, ef ég man rétt, fært stýrivexti sína niður í 1%. Ég tel það grundvallaratriði til að hér þróist eðlilegur lánamarkaður í landinu, ekki lottómarkaður heldur eðlilegur lánamarkaður þar sem við sækjumst ekki eftir því að flytja inn peninga og flytja út vexti, heldur miðum við lánamarkað sem styður við fyrirtækin í landinu og þá sérstaklega litlu fyrirtækin. Smáfyrirtækin eru burðarás hagkerfis hvers einasta ríkis. Mönnum sást því miður yfir það allt of lengi að smáfyrirtæki og einstaklingar eru burðarás hagkerfisins. Þeim þarf að tryggja það vítamín sem nauðsynlegt er með því að hafa vaxtastigið eðlilegt í landinu.