136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

vinnubrögð við gerð fjárlaga.

241. mál
[18:24]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu þingsályktunartillaga frá hv. þm. Ármanni Kr. Ólafssyni en við eigum bæði sæti í fjárlaganefnd og höfum t.d. velt fyrir okkur þeim þáttum sem hann leggur til í þingsályktunartillögu sinni. Þar leggur hann til að tekin verði upp ný vinnubrögð við fjárlagagerð og að kannaðir verði kostir þess að taka upp svokölluð núllgrunnsfjárlög.

Á síðustu árum hefur meginreglan í fjárlagagerð verið sú að horft er til fjárlaga síðasta árs og síðan er gerð tillaga um hækkun í samræmi við verðlagsbreytingar frá fyrra ári. Þetta þekkjum við mjög vel. Þá er einnig horft til afkomu viðkomandi stofnunar eða fjárlagaliðar og hvort bætt hafi verið í fjármagni frá síðustu fjárlögum, t.d. á fjáraukalögum. Jafnframt er höfð hliðsjón af árferði og þegar hart er í ári er klipið af en ef afkoma ríkissjóðs er góð er tilhneiging til þess að bæta í. Þetta þekkjum við mjög vel. Þar fyrir utan er náttúrlega líka horft til afkomu stofnunarinnar, hafi afkoma stofnunarinnar verið slæm þá er ákveðin tilhneiging til að bæta meiru í. Aðhaldið í fjárlögum er því í rauninni afskaplega lítið og það sem er líka alvarlegt í þessu er að forstöðumenn stofnana virðast í allt of mörgum tilvikum alls ekki virða þann ramma sem fjárlögin gefa þeim og setja þeim ákveðnar skorður.

Hv. flutningsmaður skilgreindi þá nálgun sem hann vill fara, eða núllgrunnsfjárlagagerð, með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Núllgrunnsfjárlagagerð, eða „zero-base budgeting“, er þekkt vinnuaðferð sem ýmsir horfa til í þeim tilgangi að draga úr sjálfvirku hækkunarferli sem núverandi fyrirkomulag hefur leitt af sér. Núllgrunnsfjárlög eru ekki lausn allra vandamála fjárlagagerðarinnar. Gildi þeirra felst fyrst og fremst í því að vald er fært til. Ríkisstofnanir og ráðuneyti sem eru stærstu notendur fjár úr opinberum sjóðum verða að endurmeta og rökstyðja öll sín útgjöld frá grunni. Alla liði útgjalda þarf að skýra út frá þörf og nauðsyn stöðunnar á hverjum tíma.“

Hv. flutningsmaður telur að við þær aðstæður sem við búum eftir bankahrunið sé rík þörf á róttækum aðgerðum til að bæta vinnslu og framkvæmd fjárlaga. Ríkisútgjöld hafa vaxið úr hófi sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Nú blasir við nýr veruleiki, fram undan eru miklar þrengingar í efnahagsmálum þjóðarinnar og í stað þess að ríkissjóður skili afgangi eins og verið hefur undanfarin ár er stórkostlegur halli á ríkissjóði af ástæðum sem við öll þekkjum.

Ég verð að segja það fyrir mína parta að það verkefni sem við stöndum frammi fyrir við niðurskurð fjárlaga er í raun og veru gríðarlegt. Það er gríðarlegt verkefni sem við finnum öll til ábyrgðar yfir og ég sé það t.d. innan þess geira sem ég þekki best til, heilbrigðisgeirans. Hann stendur frammi fyrir sjö milljarða kr. niðurskurði frá því sem fjárlagafrumvarpið fyrir þetta ár lagði upp með, þ.e. um 7% af þeim fjármunum sem hefðu annars farið til rekstursins og því sjáum við að þetta er gríðarlega mikið verkefni. Maður sér ekki alveg fyrir sér hvernig það gengur eftir miðað við það sem við í fjárlaganefndinni höfum séð og heilbrigðisnefndin reyndar líka, að þessar stofnanir hafa miklu fremur farið fram úr fjárlögum en að þær hafi verið undir. Þetta er því stórt verkefni sem við þurfum að halda vel á og gæta þess á sama máta að það sníði ekki af þjónustunni í of miklum mæli.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikil þörf á að endurskoða allan rekstur ríkisins frá grunni og sú aðferð sem hann leggur til er allrar athygli verð, ekki síst í þeim verkefnum sem ég nefndi áðan innan heilbrigðisþjónustunnar. Ríkiskerfið hefur þanist út á síðustu árum og mörgum finnst það hafa vaxið stjórnlaust og því er haldið fram að það sem einna helst skýri útgjaldaaukningu og útþenslu í starfsemi ríkisins síðustu ára hafi verið aukin hagsæld í samfélaginu. Ríkissjóður fékk auknar skatttekjur, m.a. í formi lækkaðra tekjuskatta á fyrirtæki, sem stórjuku skattskil fyrirtækja til ríkisins, en einnig í formi tekjuskatta vegna aukins kaupmáttar í samfélaginu og aukinnar veltu þannig að bæði tekjuskattar og veltuskattar jukust. Til marks um þetta, þó að það sé reyndar á öðru sviði stjórnkerfisins, má benda á að á árinu 1997 skiluðu fasteignagjöld og útsvar 35 milljörðum kr. til sveitarfélaganna en átta árum seinna eða á árinu 2005 skiluðu þessir tekjustofnar sveitarfélögunum 107 milljörðum kr., sem var þreföldun á einungis átta árum.

Á sama tíma hafa kröfur aukist, t.d. um velferðarþjónustu eins og heilbrigðisþjónustuna en kostnaður við hana hefur aukist verulega á síðustu árum og áratugum, sem hefur vissulega skilað sér í bættri heilbrigðisþjónustu og vonandi einnig í bættu heilbrigði, sem er kannski ekki á sama máta eins augsýnilegt. Raunaukning til heilbrigðismála hefur á síðustu tíu árum verið u.þ.b. 5% á ári sem er töluvert umfram það sem er í mörgum öðrum geirum hins opinbera.

Í nýju vefriti fjármálaráðuneytisins sem var dreift í síðustu viku kemur fram að útgjöld til velferðarmála og almannatrygginga hafi aukist um 79% að raungildi milli áranna 1999 og 2009, á tíu ára tímabili. Þar af hafa mæðra-, sjúkra- og örorkubætur aukist um 190%, elli-, örorku- og ekkjulífeyrir um 67% og atvinnuleysisbætur um 400%, sem er afleiðing af því ástandi sem við stöndum frammi fyrir. Þetta snýr reyndar ekki að rekstri ríkisins eða rekstri ríkisstofnana en það sýnir okkur hvaða flokkar hafa staðið að hinni raunverulegu velferð á síðustu árum en á þessum tíma hafa Sjálfstæðisflokkur ásamt Framsóknarflokki verið við völd, stærstan hluta þessa tíma.

Ég hef áður bent á í öðru samhengi að á síðustu tveimur áratugum hafi ríkisstofnunum fjölgað verulega, m.a. til að sinna stjórnsýsluverkefnum og öðrum samfélagslegum verkefnum sem er talið eðlilegt að séu fjármögnuð af ríkinu. Verkefni þessara stofnana snúa oft upp á sig, starfsfólki fjölgar og umfang starfseminnar eykst með tilheyrandi auknum kostnaði. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé á hverjum tíma að horfa gagnrýnum augum á starfsemi ríkisstofnana og meta hvort þær hafi aukið starfssvið sitt umfram það sem lög og reglur setja þeim ramma um varðandi starfsemina. Ég tek því undir með hv. þingmanni að veruleg þörf er á að endurmeta verkefni ríkisins. Það hefur margþættan tilgang, m.a. þann að afmarka þau verkefni sem ríkið óumdeilanlega á að hafa með hendi og um leið að ná betri tökum á fjárlagagerð. Þar getur aðferðafræðin sem hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson leggur til með þingsályktunartillögu sinni, sem er hér til umræðu, komið að gagni.

Með grúski á alþingisvefnum komst ég að því, eins og hv. flutningsmaður, að sambærileg tillaga var hér til umræðu í kringum 1980 og 1. flutningsmaður var Friðrik Sophusson. Á þeirri þingsályktunartillögu var jafnframt ungur þáverandi varaþingmaður, Ellert B. Schram, en eins og flestir vita á hann uppruna sinn sem stjórnmálamaður í Sjálfstæðisflokknum, eins og reyndar margir góðir þingmenn í öðrum flokkum.

Í ræðu þáverandi þingmanns, Friðriks Sophussonar, bendir hann m.a. á þá velþekktu staðreynd sem við núverandi þingmenn þekkjum vel, að fjárlög byggi fremur á hefð en þörf og eins og hann segir í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„… að jafnvel er erfitt að detta út af fjárlögum hafi verkefni einhvern tíma komist inn á þau. Fjárlagagerðin er öll heldur íhaldssöm enda eru fjárlögin þannig byggð upp að mjög erfitt er að ná fram verulegum breytingum á þeim.“

Ég bendi á að þetta er á árinu 1980, það eru 30 ár síðan þetta var sett fram og maður veltir fyrir sér hvernig stendur á því að ekki hafi verið tekið mið af þessum ágætu tillögum þeirra.

Þá bendir hann jafnframt á að með þeirri breytingu sem hann lagði til og er í samræmi við þá tillögu sem hér er til umfjöllunar gangi fjárveitingar til verkefna en ekki til stofnana. Þannig eru verkefnin og umfang þeirra skilgreind, fjármagnsþörf til að sinna þessum verkefnum er metin og veitt á fjárlögum til viðkomandi starfsemi til framkvæmda í samræmi við þann ramma sem þeim er settur. Þessari aðferð er m.a. beitt í rekstri fyrirtækja á almennum markaði og þykir nauðsynlegt tæki í áætlanagerð og árangursmati á starfsemi stofnunar eða fyrirtækis.

Það er því full ástæða fyrir okkur að skoða þær starfsaðferðir sem eru notaðar í rekstri fyrirtækja á almennum markaði og því vil ég að lokum fagna þessari þingsályktunartillögu. Ég tel hana vera mjög mikilvægt innlegg í umræðu um endurskoðun á fjárlagagerð, sem er löngu, löngu, löngu tímabær.