136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

vinnubrögð við gerð fjárlaga.

241. mál
[18:35]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar við mig. Ég vil benda honum á að í raun og veru hafa verið stigin ákveðin skref í þessa veru. Við samþykktum á haustþingi nýtt frumvarp, ný lög um sjúkratryggingar, sem hefur að meginmarkmiði að skilgreina verkefni innan heilbrigðiskerfisins og skilgreina þau þannig að hægt sé að átta sig á markmiðum hverrar stofnunar fyrir sig — hver verkefnin eru, hvernig þau eru verðlögð og hvernig verðmyndunin er. Þar er raunverulega verið að skoða aðskilnað kaupenda og seljenda þar sem kaupandi er ríkið en veitendur geta þess vegna verið opinberar stofnanir.

Með samþykkt þess frumvarps, og með því að aðskilja sjúkratryggingar frá öðrum almannatryggingum, er stigið stórt skref í þessa veru. Það mun hins vegar taka mjög langan tíma að koma því kerfi inn alls staðar. Við höfum ákveðna fyrirmynd í samningum sem Tryggingastofnun gerði við sjálfstætt starfandi sérfræðinga, bæði lækna og aðra, en þó að í því sé ákveðin fyrirmynd erum við, með þessari nýju stofnun, að bæta aðstöðu, tæki og afl ríkisins í því að semja um slík verkefni. Aðalatriðið er að heil stofnun er komin í kringum þetta verkefni, og get ég tekið undir það með hv. þingmanni að þarna er möguleiki á að hefja þessa vinnu.