136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

vinnubrögð við gerð fjárlaga.

241. mál
[18:37]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þarfa þingsályktunartillögu um endurskoðun vinnubragða við gerð fjárlaga. Ég tel ástæðu til að fagna tillögunni eins og hún er fram sett. Eins og fram kom í máli flutningsmanns, hv. þm. Ármanns Kr. Ólafssonar, þá lá fyrir í kringum 1980 tillaga um nýja aðferðafræði við gerð fjárlaga og er löngu tímabært að það sé skoðað.

Mig langar að gera sérstaklega að umtalsefni það sem stendur í greinargerð, að ríkisstofnanir og ráðuneyti, sem eru stærstu notendur fjár úr opinberum sjóðum, verði að endurmeta og rökstyðja öll sín útgjöld frá grunni. Ég held að þar séum við komin að grunnþætti í fjárlögunum öllum, að ekki bara þessar stofnanir, ráðuneytin og ríkisstofnanir, þurfi að endurskoða frá grunni heldur verður líka að fylgja ábyrgð og eftirfylgni. Ráðherrar í ráðuneytum bera hina pólitísku ábyrgð. Þeir bera líka fjárhagslega og rekstrarlega ábyrgð á ráðuneyti sínu og stofnunum. Þeirra er að fylgja eftir með einum eða öðrum hætti á hvern hátt stofnanir sem falla undir ráðuneyti þeirra vinna og fara með opinbert fé. Ef það þýðir að ágætir ráðherrar þurfa að vera í meiri og betri tengslum við undirmenn sína, við forstöðumenn stofnana, og vinna með þeim með öðrum hætti en gert er í dag, til að tryggja að fjárhagsleg ábyrgð stofnananna og þeirra sjálfra sé virt, þá verða menn að koma á slíku kerfi innan ráðuneytanna.

Það tíðkast víða í sveitarfélögum að framkvæmdastjórar, bæjarstjórar eða sveitarstjórar, fylgjast á þann hátt með stofnunum sem eru í þeirra sveitarfélagi, hvernig haldið er á fjármunum. Forstöðumenn og framkvæmdastjórar ræða það af hverju þessi stofnunin eða hin virðist vera að sigla fram úr þeim ramma sem settur hefur verið. Og það er gert strax, ekki er beðið í hálft ár eða fram til ársloka. Fjárlög eru afgreidd úr þinginu í desembermánuði, nýtt fjárlagaár tekur við á hverri stofnun 1. janúar og virðist sem ekkert eftirlit sé á öllu árinu fyrr en í lok árs að stofnanir fara að kalla eftir fjáraukalögum og meiri fjármunum. Það er líka lenska hjá ríkisstofnunum vegna þess að þær veita allar, forstöðumenn þeirra og starfsmenn, þjónustu — það er alltaf fyrsta val að fá meira fjármagn. Sjaldnar eða aldrei virðist það vera fyrsta val að skoða hvort og hvernig sérhver stofnun getur breytt hlutum innan frá til að hún rýmist innan þeirra fjárlaga sem henni eru sett.

Fjárlög eru lög, ekki áætlanir eða viðmiðanir. Um er að ræða lög og það ber að fara eftir þeim. Samkvæmt 41. gr. stjórnarskrárinnar er ljóst, með leyfi hæstv. forseta, að ekkert gjald má reiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða í fjáraukalögum. Við virðum þetta ekki og stofnanir ríkisins virða þetta ekki. Ég tel því, samhliða því að þingsályktunartillögunni verður vísað til nefndar, að í þeirri nefnd verði það skoðað og því velt upp með hvaða hætti við getum fylgt enn frekar eftir ábyrgð og eftirfylgni bæði ráðherra, með þeim stofnunum sem falla undir ráðuneyti þeirra, og forstöðumanna.

Hvert er ferli forstöðumanna ef þeir sjá að þeir fjármunir sem stofnun þeirra hefur fengið duga ekki? Hvernig eiga þeir þá að vinna? Hvert eiga þeir að snúa sér? Þeir eiga ekki fyrst að fara í fjölmiðla. Það er algerlega klárt þegar um viðkvæmar stofnanir er að ræða eða viðkvæma þjónustu að þá byrja menn ekki á því að fara í fjölmiðla og kvarta yfir því að ekki séu til nægir fjármunir til að reka stofnunina. Stofnuninni ber að fara að lögum og þeirri hugsun þarf að koma að hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það er dapurt að okkur skuli ekki hafa tekist, í öllu því góðæri sem var, að draga úr ríkisútgjöldum, að við skulum hafa keyrt upp allan þann ramma og sitjum þar af leiðandi í enn verri súpu nú þegar harðnar á dalnum en við hefðum þurft af því að ábyrgð og eftirfylgni skorti. Það skortir að við virðum fjárlögin sem lög en ekki tilmæli. Mörgum er hegnt fyrir að brjóta lög. Við sjáum sjaldnast að ráðherrum eða ríkisstofnunum sé hegnt fyrir að brjóta fjárlögin. Það tíðkast ekki. Menn þurfa að velta því fyrir sér: Af hverju finnst okkur sjálfsagt að brjóta sum lög en önnur ekki? Þessari hugsun verður að snúa við.

Ég fagna þessari þingsályktunartillögu. Ég fagna þessari tilraun til að breyta um vinnubrögð í þeirri von að fjárlaganefnd, sem og þeir sem fara með opinbert fé, virði lögin.