136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

vinnubrögð við gerð fjárlaga.

241. mál
[18:53]
Horfa

Flm. (Ármann Kr. Ólafsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Ragnheiði Ólafsdóttur fyrir að taka undir margt af því sem hér hefur komið fram. Hv. þingmaður hefur talað fyrir því að hér eigi að fara fram málefnaleg umræða og leggja beri karp til hliðar en um leið spyr hún hvar við sjálfstæðismenn höfum verið undanfarin 18 ár.

Ég hef alla vega ekki verið hér í þessum sal í 18 ár, það er alveg ljóst, hef líklega verið 18 mánuði hér á þingi. Ég hef því ekki getað lagt þetta mál mikið fyrr fram en ég tek það samt sem áður fram að þingsályktunartillagan var lögð fram þegar Sjálfstæðisflokkurinn var enn í ríkisstjórn. Hún er ekki til komin vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn lendi í minni hluta eins og kannski hefði mátt skilja á orðum hv. þingmanns. Ef hv. þingmaður læsi ræður sem ég hef haldið í kringum fjárlagagerðina sæi hún að ég hef einmitt fjallað um það hversu mikið ríkissjóður hefur verið að bólgna út. Ég hef fjallað um það sérstaklega, sem ég kom inn á í ræðunni hér áðan, að þetta gerist með þessum sjálfvirka hætti, að fjárlögin hækka í raun í takt við það sem landsframleiðslan eykst — þá eru til auknir peningar og þá eru liðirnir bara hækkaðir sjálfkrafa.

Mér fannst því að ég þyrfti að leggja eitthvað til málanna og þess vegna legg ég þessa þingsályktunartillögu fram og vona að hv. þingmaður virði það við mig jafnvel þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í stjórn í mörg ár áður en ég kom inn í þennan þingsal.