136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál.

[13:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að spyrja hv. þm. Guðbjart Hannesson um málefni Hólaskóla en á sínum tíma í fyrri ríkisstjórn varð samkomulag á milli þáverandi stjórnarflokka að færa málefni landbúnaðarháskólanna á Hvanneyri og Hólum undir ráðuneyti menntamála. Ríkisstjórnin samþykkti á sínum tíma tillögu mína um að skipa starfshóp sem hefði það að meginmarkmiði að stuðla að eflingu og uppbyggingu Hólaskóla til framtíðar og brýnt er að svo verði. Einnig átti starfshópurinn að endurskipuleggja starfsemina á Hólum með tilliti til þess breytta umhverfis sem háskólasamfélagið hefur staðið frammi fyrir. Jafnframt átti sérstaklega að tryggja að haldið væri um málefni Hólastaðar og Hólar héldu reisn sinni og stöðu sem miðstöð mennta, menningar og ekki síst kirkjulegra málefna. Að þessu átti starfshópurinn að vinna og hann vann mikla og góða vinnu. Í hópnum var hv. þm. Guðbjartur Hannesson ásamt þingmönnunum Sigurði Kára Kristjánssyni, Guðfinnu Bjarnadóttur og Önnu Kristínu Gunnarsdóttur auk Guðmundar Árnasonar, ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu, sem var formaður hópsins.

Markmið hópsins var að huga að því hvernig Hólar væru í breyttu umhverfi en ekki síður hvernig hægt væri að koma fram með raunhæfar tillögur til að byggja upp starfsemi Hóla.

Ein af niðurstöðum hópsins var að skoða fjárhagsstöðu Hóla, en hún hefur verið mjög erfið í áraraðir og á henni var sérstaklega tekið, m.a. á grundvelli skýrslunnar, við síðustu fjárlagagerð. Ein af tillögunum var að Hólaskóli yrði rekinn sem sjálfseignarstofnun með stuðningi heildarsamtaka í atvinnulífi, félagasamtaka og sveitarfélaga til að efla bakhjarla skólans og tryggja það að skólinn gæti fengið svigrúm og tækifæri til að byggjast upp til lengri tíma. Ég er sammála því en nú vill svo til að hæstv. menntamálaráðherra hefur dregið þessar tillögu til baka og því spyr ég hv. þm. Guðbjart Hannesson, sem var nefndarmaður í þessum hópi, hver afstaða hans er til þeirrar ákvörðunar ráðherra.