136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál.

[13:42]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins frá þessu ágæta máli að efnahagsvanda og bráðavanda heimila og fyrirtækja í landinu. Ljóst er að eldar loga í íslenskum efnahagsmálum og gjaldeyriskreppan sem við stöndum frammi fyrir er mjög djúp. Það má fullyrða að hún sé einhver alvarlegasta ógn við efnahagslegt fullveldi íslensku þjóðarinnar sem við höfum nokkurn tíma staðið frammi fyrir. Ég tel að umsóknaraðild að Evrópusambandinu sé eina færa og rétta leiðin út úr þessum bráðavanda. Þá náum við samningsstöðu gagnvart Evrópusambandinu um neyðaraðstoð til að koma verði aftur á gjaldmiðilinn. Þannig náum við að endurheimta efnahagslega stöðu þjóðarinnar sem er eina leiðin, að mínu mati, að nýjum stöðugleika í efnahags- og gjaldmiðilsmálum. Það að taka upp evruna er eina leiðin að lágum vöxtum, stöðugu gengi og afnámi verðtryggingar. Tal um afnám verðtryggingar án evruupptöku er einfaldlega ekki trúverðugt.

Því vil ég spyrja hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins, — sem hefur í vetur tekið undir mikilvægi þess að setja Evrópumálin á dagskrá og leita raunhæfra leiða til að taka upp annan gjaldmiðil á Íslandi í stað þess að ræða með einhverju loðnu orðalagi um villuljós eins og einhliða upptöku á öðrum gjaldmiðli — hvaða leiðir hún sjái fyrir sér, nú þegar tveir mánuðir eru til kosninga, að við höfum út úr þeim bráða vanda sem íslensk heimili og íslensk fyrirtæki standa nú frammi fyrir út af gengisstöðu íslensku krónunnar, verðbólgu, vöxtum og verðtryggingu. Telur hv. þingmaður að flokkur hennar afgreiði þetta mál á landsfundi sínum í mars, eins og fyrirhugað var í janúar, og leiði þannig fyrir sitt leyti til lykta langstærsta einstaka hagsmunamál íslenskra heimila og fyrirtækja í landinu? Fjölskyldur og fyrirtæki í landinu standa frammi fyrir bráðavanda og mikilli ógn og fólk verður að fá skýr svör við þessu langstærsta einstaka álitamáli (Forseti hringir.) íslenskra stjórnmála, framtíð gjaldmiðilsmála í landinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)