136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál og ESB.

[13:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það hafi komið ágætlega fram í umræðunni að við erum sammála um meginatriðið um markmiðið varðandi Hólaskóla. Efling skólans skiptir mjög miklu máli, háskólauppbyggingin þar og allt sem henni tilheyrir.

Mér finnst engu að síður mikilvægt að vekja athygli á því af hverju við erum í þeim vanda sem skólinn er í og það verður hver að eiga sitt í þeim efnum. (Gripið fram í.) Ég mun klára svarið. Ég stóð fullkomlega á bak við þær tillögur sem nefndin skilaði og átti þátt í því að stinga upp á því að skólinn yrði sjálfseignarstofnun. Ég tel það mjög mikilvægt. Ég treysti á að þær ákvarðanir sem núverandi hæstv. menntamálaráðherra tekur nú um að fresta ákvörðun um sjálfseignarstofnun feli eingöngu í sér þá ástæðu sem tilgreind hefur verið, þ.e. að of skammur tími sé til þess að breyta bæði búnaðarfræðslulögunum og lögunum um Hólastað á þeim stutta tíma sem eftir er enda voru þau mál ekki tilbúin hjá fyrrverandi ríkisstjórn.

Ég sagði í fyrri ræðu minni að það sé gríðarlega mikilvægt að skuldir verði gerðar upp og skólinn núllstilltur. Hann fái heimild til þess að vinna samkvæmt þeirri áætlun sem hann hefur lagt fram, á komandi hausti. Það þarf að veita það svar strax vegna þess að fólk sem fer í skóla í haust lætur innrita sig núna. Svar mitt er því algjörlega skýrt, ég vil að áfram verði unnið eftir þessari áætlun.

Ég vakti líka athygli á því að þegar við skiluðum nefndaráliti var ekki gert ráð fyrir að sjálfseignarstofnunin yrði stofnuð svona hratt. Ég tel engu að síður og var talsmaður þess að það yrði gert einfaldlega vegna þess að það liggur á að koma römmum utan um þennan skóla. Það er gleðilegt að heyra að þingmenn bera hag Hólaskóla fyrir brjósti og ég mun gera allt sem ég get til þess að stuðla að því að þar verði öflugt skólastarf áfram. Þetta er mikilvæg stofnun í heimahéraði og mikilvæg stofnun í háskólaflórunni í þessu landi.