136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla – efnahagsmál og ESB.

[14:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Brýnasta úrlausnarefni í íslenskum stjórnmálum er að tryggja hag heimilanna (Gripið fram í.) og tryggja að atvinnurekstur haldist í landinu. Að því er ríkisstjórnin að vinna og sá þingmeirihluti sem ver hana falli eða styður hana.

Það er hins vegar svo að ef ekki fæst lausn á gjaldmiðilsmálum Íslendinga á næstu mánuðum og missirum þá verður ástandið í landinu þannig að við þurfum að búa við gjaldeyrishöft og taka upp að nýju einhvers konar haftastefnu eins og þá sem stjórnmálaflokkar á Íslandi og stjórnvöld ráku hér mjög lengi eftir stríð og í raun og veru allt fram á viðreisnarárin, sem sumir muna kannski eftir.

Ef það er það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill þá er rétt að hann komi fram fyrir kjósendur og segi okkur það. Ef hann hefur enga aðra lausn á gjaldmiðilsmálum Íslendinga og efnahagsmálum þeirra en þá að taka upp höft, að láta skammta gjaldeyrinn úr ríkisbönkum og reka hér væntanlega pólitíska útdeilingarstefnu á gæðum og verðmætum, þá væri rétt að Sjálfstæðisflokkurinn segði okkur það.

Ef hann vill eitthvað annað, ef hann hefur gert upp við sig eftir öll sín 18 ár í ríkisstjórn, öll sín 18 ár við hagstjórnarvöl í samfélaginu — hér situr hv. þm. Geir H. Haarde sem í gær varð uppvís að því að halda fram óhróðri um forsætisráðherra og var afsannað með nokkrum tölvugögnum beint í fangið á honum, því miður, það var ömurlegt að sjá fyrrverandi forsætisráðherra standa í þeim sporum, hv. þingmann, en undir hagstjórn hans og annarra hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki hugmynd um hvernig á að leysa þessi gjaldmiðilsmál. Og landsfundurinn sem átti að halda fyrir lok janúar sem átti að gera upp Evrópumálin, sjálfstæðismenn eru ekki hænufeti, ekki tálengd (Gripið fram í.) nær einhvers konar niðurstöðu í Evrópumálunum en þá var. Þessu þurfa sjálfstæðismenn að svara, kæri og ágæti (Forseti hringir.) hv. varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.