136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla – efnahagsmál og ESB.

[14:02]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétri Blöndal er náttúrlega töluverð vorkunn. Hann hefur meðal annarra staðið vörð um þá þjóðarlygi síðustu 15 árin að okkar málum væri vel fyrir komið með Evrópska efnahagssvæðinu þar sem við stæðum fyrir utan sambandið með peningamálastefnu okkar og gætum búið við þann háska sem alltaf blasti við okkur um óheft flæði fjármagns inn á 500 milljón manna markað og sérstakt kerfi trygginga og seðlabanka. Hann var örugglega einn þeirra þingmanna sem samþykktu í október 1999 t.d. innleiðingu á þeirri frægu tilskipun. (Gripið fram í.)

En við skulum ekki láta það villa okkur sýn. Brýnasta úrlausnarefni íslensku þjóðarinnar í dag er að vinna okkur út úr gjaldmiðilskreppunni og að koma með framtíðarlausnir í þeim málum sem tryggja þjóðinni til frambúðar lága vexti, stöðugt gengi, afnám verðtryggingar og almennilegan stöðugleika í bráð og lengd.

Við getum deilt um leiðirnar að því. Ég hef hlustað grannt á hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson tala um einhliða upptöku evru síðustu mánuði. Gott og vel. Aðrir hafa bent á annað og aðrir á hið þriðja. Ég tel sjálfur að við höfum tvo kosti: Núverandi kerfi, þ.e. gera aðra tilraun með fljótandi krónu eða sækja um aðild að Evrópusambandinu og nota þá samningsaðstöðu sem strax skapast til þess að fá Evrópusambandið til að koma að því með sérstakri aðstoð að koma verði aftur á krónuna á meðan við göngum inn í sambandið. Það mun taka nokkur ár. Við þurfum ekki að deila um það.

En við getum ekki beðið lengur. Kosningarnar í vor eiga að mínu mati og verða að snúast um þetta framtíðarland. Þetta framtíðarfyrirkomulag okkar peningamála. Það væri glapræði að mínu mati að mynda ríkisstjórn eftir kosningar sem ekki hefði náð samstöðu og samkomulagi um þau mál. Íslenska þjóðin þolir það ekki að þeim málum verði aftur og enn skotið á frest eftir kosningarnar í vor, kosningar sem eiga að snúast um framtíðarfyrirkomulag peninga- og gjaldmiðilsmála okkar og hvernig við vinnum okkur út úr þeirri alvarlegu (Forseti hringir.) gjaldmiðilskreppu sem við erum stödd í. (Gripið fram í.)