136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla – efnahagsmál og ESB.

[14:07]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs til að tala um Hólaskóla og mikilvægi hans. En ég held að ég hafi bara eina setningu um hann og fari yfir í hina umræðuna sem er líka mjög mikilvæg. En hún klárast ekki í því stutta formi sem við höfum hér í upphafi fundar. Ég held að stóra spurningin sé sú hvernig meta menn hinn kostinn. Annar kosturinn er að ganga í Evrópusambandið og hann er gallaður segja menn og örugglega er hann það. En hinn kosturinn er bara óstöðugleiki, óðaverðbólga og okurvextir. Þetta þarf fólk að hafa í huga þegar það metur þessa hluti. En svo eru hv. þingmenn líka alltaf að svara sér sjálfir. Væri ekki skynsamlegt að fá frekar svörin frá Brussel sem við þurfum á að halda, til þess að geta tekið afstöðu?

Það var niðurstaða framsóknarmanna á flokksþingi sem haldið var í janúar, að sækja um aðild að Evrópusambandinu með ákveðnum skilyrðum og finna það út hvað fæst út úr slíkum viðræðum. Ég held að það sé einfaldlega það sem þarf að gera og auðvitað vonast maður til þess að sá mikli fundur sem haldinn verður í Sjálfstæðisflokknum innan tíðar komist að slíkri niðurstöðu. En það er voðalega erfitt að segja þeim þingmönnum fyrir verkum sem þar eiga sæti.

Það var umræða um þetta í gær eins og hér hefur komið fram og hún var vissulega ágæt. Þar kom m.a. hv. þm. Björn Bjarnason sem sagði að það hefði ekki verið neinn áhugi á því þegar nefndin starfaði sem hann veitti forustu um Evrópumál að fjalla um gjaldmiðilsmálin. Nú sat ég ekki í þeirri nefnd en ég reikna bara með að hann hafi stýrt því starfi öllu og ekki gefið mikið færi á því að fjalla um gjaldmiðilsmál. Það kæmi mér að minnsta kosti ekki á óvart að þannig hefði það verið.