136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

þingsályktunartillaga um hvalveiðar.

[14:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Aðeins að því máli sem hér hefur verið til umræðu. (Gripið fram í.) Það er eðlilegt að Samfylkingin beini spjótum sínum og fyrirspurnum að Sjálfstæðisflokknum í þessu Evrópumáli þegar þeir eru búnir að átta sig á því að það verður ekki án aðkomu Sjálfstæðisflokksins að þetta mál fari í gegn. En það voru þeir sem hlupust undan merkjum og verkum í síðustu ríkisstjórn og þeir sitja uppi með það.

Virðulegi forseti. Í síðustu viku var lögð hér fram þingsályktunartillaga sem á sér ekki fordæmi. Hún á sér ekki fordæmi vegna þess að á henni eru 36 þingmenn, stór meiri hluti þingsins. Hún fjallar um að hefja hvalveiðar eða að halda áfram hvalveiðum. Það er vitað að auk þeirra 36 þingmanna sem lögðu fram og standa að þessari þingsályktunartillögu er fjöldi annarra þingmanna til viðbótar tilbúinn að ljá málinu lið sitt.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur sett þetta mál í óvissu og á grundvelli þess hversu mikilvægt er að hraða umræðu um málið, vegna þeirrar óvissu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur skapað í málinu og vegna þeirra tafa sem það veldur á undirbúningi þess að efna til á þriðja hundrað starfa og allrar þeirrar vinnu og verðmætasköpunar sem fæst með því að hefja hér hvalveiðar, (Gripið fram í.) þá vil ég spyrja hæstv. forseta (Forseti hringir.) hvort ekki megi reikna með því að þetta þingmál fái forgangshraða (Forseti hringir.) í þinginu og komi á dagskrá þingsins á næstu klukkutímum.