136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig þetta mál stendur en aðdragandinn er sá að þann 8. október síðastliðinn ákváðu Bretar að kyrrsetja eigur Landsbankans og beittu svokölluðum hryðjuverkalögum. Aðdragandinn var nokkuð sérstakur og það komu geysilega misvísandi skilaboð frá ráðamönnum þjóðarinnar. Þar vil ég nefna sérstaklega fyrrverandi ráðherra, hv. þingmenn Björgvin G. Sigurðsson, Árna M. Mathiesen og Geir H. Haarde. Þessir hv. þingmenn sem voru þá ráðherrar áttu bæði símtöl og fundi með ráðamönnum í Bretlandi og létu hafa ýmislegt eftir sér á opinberum vettvangi sem varð til þess að Bretar ákváðu að beita þessum hryðjuverkalögum. Það er skýring Bretanna.

Það kom fram í neðri deild breska þingsins, og ég vil vitna beint í þetta, virðulegi forseti, hjá Ian Pearson, aðstoðarráðherra efnahagsmála í breska fjármálaráðuneytinu. Hann sagði í þinginu, með leyfi forseta:

„Ýmsar yfirlýsingar voru gefnar af forsætisráðherra Íslands um að íslenskir innstæðueigendur yrðu verndaðir sem merkir að réttindi breskra kröfuhafa hefðu getað raskast í samanburði við réttindi annarra. Þrátt fyrir endurteknar tilraunir til að leita fullvissu gat ríkisstjórn Bretlands ekki fengið skýringar frá Íslandi um stöðu breskra kröfuhafa við upplausn Landsbankans. Í ljósi þessarar stöðu var fyrirskipun um kyrrsetningu eigna Landsbankans 2008 gefin út 8. október.“

Það er því alveg ljóst að að einhverju leyti komum við okkur sjálf í þessi vandræði.

Það kom líka fram á opinberum vettvangi, virðulegi forseti, hjá seðlabankastjóra á morgunfundi Viðskiptaráðs 18. nóvember að seðlabankastjóri býr yfir upplýsingum og ég ætla að vitna í ræðu seðlabankastjóra, með leyfi forseta:

„Ég hef engar áhyggjur af þessu vegna þess að þegar málin verða rannsökuð hljóta fleiri samtöl að verða birt. Mér er kunnugt um efni þeirra og mér er kunnugt um hvað í raun réði afstöðu breskra stjórnvalda.“

Af þessum sökum og miðað við hvernig málið er vaxið tel ég að við verðum að fá upplýsingar í þinginu um hvernig málið stendur í dag. Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvert er mat hans á því, af hverju beittu Bretar okkur hryðjuverkalögum? Urðu þessi misvísandi skilaboð ráðamanna okkar til þess? Er einhverjum upplýsingum haldið frá opinberri umræðu á vegum stjórnvalda eða opinberra stofnana vegna þessa máls? Og þar vil ég sérstaklega tilgreina orð seðlabankastjóra. Af hverju er ekki búið að aflétta hryðjuverkalögunum, þ.e. þessari frystingu? Íslensk stjórnvöld báðu um það sérstaklega með bréfi og þetta er hægt að lesa í tilkynningu frá íslenskum stjórnvöldum 6. janúar. Er hægt að fara fram á það við Breta að þeir taki ábyrgð á Icesave-skuldbindingunum í ljósi þess að þeir beittu okkur þessum hryðjuverkalögum? Eiríkur Bergmann hélt þessu fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld. Og hvernig gengur yfirleitt að semja um þessar Icesave-skuldir? Hvernig er staðan á þeim viðræðum?

Ég veit að hæstv. ráðherra hlýtur að þekkja það vel af því að viðræðurnar við Breta fara fram á vegum utanríkisráðuneytisins. Einnig vil ég inna hæstv. ráðherra eftir því í ljósi þess sem hv. þm. Geir H. Haarde sagði í viðtali hjá BBC í þættinum „Hardtalk“ aðspurður um hvort hann hefði talað við Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, eftir að Bretarnir beittu okkur hryðjuverkalögum, en þá sagði hv. þm. Geir H. Haarde: „Ég hefði kannski átt að gera það.“ Er hæstv. utanríkisráðherra kunnugt um hvort núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hafi átt samtöl við breska ráðamenn og þá við forsætisráðherra Breta, Gordon Brown, í ljósi alvarleika þessa máls? Getur hæstv. ráðherra upplýst þingið og þjóðina um stöðuna á hryðjuverkalögunum, af hverju er ekki búið að aflétta frystingunni? Hvernig standa samningarnir vegna Icesave? Getum við tengt þessi mál saman í ljósi þess að Bretar fóru fram af mikilli hörku? Og því hefur verið mótmælt hér af talsverðum myndarskap, m.a. af hæstv. utanríkisráðherra. Er hægt að fara fram á það við Bretana að þeir taki meira á sig af Icesave-skuldbindingunum? Af því að eins og ég skil málið samþykkti síðasta ríkisstjórn, bæði sjálfstæðismenn og samfylkingarmenn að borga þessar skuldbindingar. Er hægt að koma sér einhvern veginn undan því, hæstv. ráðherra?