136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér í þessari umræðu er grautað saman tvennu af hálfu talsmanna Framsóknarflokksins, annars vegar skuldbindingum sem stafa af Icesave-skuldbindingum og hins vegar beitingu hryðjuverkalaganna.

Hér ýja talsmenn Framsóknarflokksins að því að það sé valkostur fyrir okkur að borga ekki. Það er mjög varhugavert. Við höfum að sjálfsögðu undirgengist þær skuldbindingar vegna Icesave-skuldbindinganna sem leiða af þjóðréttarlegum skuldbindingum okkar og eru í samræmi við þá stefnumörkun og þær yfirlýsingar sem gefnar voru af hálfu stjórnvalda missirum saman í aðdraganda hrunsins.

Hryðjuverkamálið er allt annað. En það er ábyrgðarhluti ef Framsóknarflokkurinn ætlar að leggjast í þann lýðskrumsleiðangur nú í aðdraganda kosninga að reyna að gefa fyrirheit um það að Ísland geti sagt sig úr samfélagi þjóðanna og þurfi ekki að bera ábyrgð á skuldbindingum sínum.

Að því er varðar beitingu hryðjuverkalaganna er það auðvitað aðgerð sem kom mjög illa við íslenska hagsmuni og skaðaði okkur. Það er aðgerð sem vissulega er brýnt að fá upplýsingar um af hverju stafaði. Áðan kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra að ekki hafa komið fram fullnægjandi skýringar um það. Og við leitum auðvitað enn skýringa á því. Það er mjög mikilvægt að af hálfu ráðuneyta verði greitt fyrir því sem kostur er að við fáum heildarmynd af atburðarásinni í aðdraganda hrunsins. Ég held að það skipti miklu máli fyrir opna og heiðarlega þjóðmálaumræðu hér á næstu mánuðum og missirum.

Auðvitað stendur eftir sú fáránlega og fráleita yfirlýsing af hálfu seðlabankastjóra í Kastljósi að Íslendingar ætluðu ekki að efna skuldbindingar sínar sem gat gefið mönnum erlendis til kynna að við ætluðum að hlaupast frá ábyrgðum okkar. Það var mikill ábyrgðarhluti að gefa þá yfirlýsingu.