136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

ástæða Breta fyrir að beita hryðjuverkalögum á Ísland.

[14:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég er algjörlega sammála hv. þm. Ragnheiði Ólafsdóttur um að það þarf að koma fram með allar þær upplýsingar sem eru til í þessu máli. Ég tel að stjórnvöld hafi gert það, a.m.k. er mér ekki kunnugt um neitt sem ráðuneyti liggja á í þessum efnum.

Þegar hv. þingmenn, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, tala um að misvísandi yfirlýsingar millum íslenskra ráðherra hafi gert það að verkum að Bretar gripu til þess verknaðar sem fólst í að beita hryðjuverkalögunum verður hún að benda á hver þessi ummæli eru sem stangast á. Það hefur ekki verið gert. Ég las á sínum tíma, þrautlas, útskriftina af samtali Alistairs Darlings og fyrrverandi fjármálaráðherra. Ég sá ekki að þar kæmi neitt fram sem stangaðist á við fyrri yfirlýsingar, m.a. yfirlýsingu fyrrverandi viðskiptaráðherra á forsíðu Morgunblaðsins né heldur þá yfirlýsingu sem kom frá viðskiptaráðuneytinu og íslenskum stjórnvöldum 5. október.

Ég hjó eftir því að eina skýringin sem Alistair Darling gaf á þessum verknaði í viðtali við BBC morguninn sem þetta gerðist var það samtal. Það var ekkert annað samtal sem mér er kunnugt um að hafi átt sér stað á þeim degi millum nokkurs íslensks ráðherra og bresks kollega nema það. Fjármálaráðherra Bretlands sagði bókstaflega að íslenska ríkisstjórnin — hann orðaði það þannig — hefði beinlínis sagt að hún hygðist ekki standa við skuldbindingar sínar. Það var rangt hjá honum. Íslenska ríkisstjórnin sagði það aldrei. Hún hefur þvert á móti sagt að hún muni leitast við, ef þörf er á, að styðja við tryggingarsjóðinn til að hann gæti staðið við þær lágmarksskuldbindingar sem honum ber. Um það verðum við hins vegar að vera sammála og við þurfum að semja um það. Hvað er það sem hægt er að semja um? Það eru auðvitað kjör sem við teljum viðunandi, ásættanleg miðað við málsaðstæður og að við getum risið undir þeim.