136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er athyglisvert mál sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttur hefur kynnt hér. Það kallar auðvitað á mikla umræðu vegna þess að þarna er ekki beinlínis verið að boða neinar lagfæringar eða umbætur á stjórnarfari hér á landi, á stjórnskipan Íslands, heldur heyrist mér að verið sé að boða einhvers konar byltingu, þannig að eitthvað þurfa menn að ræða þetta út frá mismunandi hliðum. Ég ætla að koma efnislega að athugasemdum á eftir en ég vildi spyrja, af því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir vék nokkuð að því sem kalla má samspil ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins varðandi þetta mál, hvort um sé að ræða samstarf milli Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarflokkanna um vinnu við málið og hvort vænta megi að það samstarf skili einhverri niðurstöðu innan skamms.