136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[15:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Eins og ég sagði í andsvari mínu áðan kallar það mál sem hér liggur fyrir á töluvert miklar og ítarlegar umræður. Við getum bara rétt hafið þær umræður hér í dag vegna þess að verið er að leggja til það sem ég kallaði byltingu en hv. þm. Siv Friðleifsdóttir mótmælti. Þetta er líkingamál en byltingin er fólgin í því að verið er að fara allt aðra leið við gerð stjórnarskrár en gert hefur verið áður og það er verið að gera ráð fyrir umbyltingu kerfisins. Hv. þingmaður gat þess í ræðu sinni að ætlunin væri að fara í heildarendurskoðun og breyta stjórnarskránni í ýmsum grundvallaratriðum og því tel ég það ekki ofmælt að boðuð sé ákveðin bylting varðandi stjórnskipun landsins miðað við það sem verið hefur. En það er ekki aðalatriði málsins.

Hugmynd um stjórnlagaþing er í sjálfu sér áhugaverð. Á þessu stigi vil ég ekki hafna henni þó að ég hafi ákveðna fyrirvara. Ég hef fyrirvara vegna þess að ég velti því fyrir mér hvernig og hvers vegna þjóðkjörið stjórnlagaþing ætti að vera betur til þess fallið að fjalla um stjórnarskrármál en þjóðkjörið Alþingi. Við kjósum til Alþingis í vor. Vilji menn gera breytingar á stjórnarskránni geta menn boðið sig fram undir þeim merkjum og tekist síðan á um málið á Alþingi. Ég held að menn vanmeti það að stjórnarskrármál eru í eðli sínu pólitísk mál og menn skipast í mismunandi hópa, kannski ekki í flokka, vegna afstöðu sinnar til stjórnarskrárinnar og við getum ekki tekið stjórnarskrána og stjórnarskrárumræðu úr pólitísku samhengi. Stjórnarskrármál eru sennilega einhver pólitískustu mál sem um getur. Mér finnst ekkert óeðlilegt að þeir sem gefa kost á sér til Alþingis takist á um stjórnarskrármál eins og önnur mál og af þeirri ástæðu hef ég ákveðnar efasemdir um að þörf sé á stjórnlagaþingi.

Nú hefur verið bent á að stjórnarskráin hafi lítið breyst í áranna rás og er það að hluta til rétt. Ég bendi þó á að ýmsir mikilvægir kaflar stjórnarskrárinnar hafa verið endurskoðaðir, aðrir ekki. Vilji hefur verið til þess að breyta ýmsum öðrum atriðum en ekki hefur náðst um það pólitísk samstaða vegna þess, eins og við vitum, að leitast hefur verið við að gera ekki stjórnarskrárbreytingar nema um það sé víðtæk pólitísk sátt. Það er ekki tilviljun, það er vegna þess að það er mikilvægt að grundvallarlög landsins séu í ákveðinni sátt en ekki í sundurlyndi. Það er mikilvægt að grundvallarlög landsins, stjórnarskráin, séu stöðug en séu ekki sífelldum breytingum háð. Það væri t.d. mjög óheppilegt ef ný ríkisstjórn, sem kæmi að völdum hverju sinni, teldi sig þurfa að gera einhverjar breytingar á stjórnarskrá til þess að koma stefnumálum sínum í framkvæmd. Stjórnarskráin á að vera stöðug og lifa lengur en ríkisstjórnir, lifa lengur en sveiflur sem eiga sér stað í hinu pólitíska lífi.

Það er því að mínu mati ekki galli heldur kostur að stjórnarskráin breytist hægt. Með því er ég ekki að segja að ekki sé ástæða til að breyta ýmsu í núverandi stjórnarskrá. Ýmsir af þeim þáttum sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi í ræðu sinni eru vissulega þess virði að þeir séu ræddir og þar séu gerðar breytingar. Ég held að mörg þau efnisatriði sem hún getur um og koma fram í þingmáli Framsóknarflokksins séu þess eðlis að rétt sé að skoða breytingar á þeim. Ég held hins vegar að hægt sé að gera það án þess að fara í þá umbyltingu sem mér heyrist hv. þingmaður og Framsóknarflokkurinn boða í þessum efnum.

Ég vildi geta hér um nokkur atriði sem ég tel að þurfi að íhuga þegar við fjöllum um þessi mál. Í fyrsta lagi þurfum við að velta því fyrir okkur — og ég tel að ekki sé ástæða til að gera lítið úr þeim þætti — að við erum stödd á þeim stað að tveir mánuðir eru til kosninga. Það eru tveir mánuðir til kosninga, við vitum ekki hversu mikið er eftir af þinginu en það er mjög skammur tími, það eru fáar vikur. Þegar við tökum ákvarðanir um grundvallarmál þurfum við að vanda okkur og við erum að fást við fjölmörg stór mál á þessum vikum. Þess vegna held ég að þegar af þeirri ástæðu sé erfitt að fara í róttækar breytingar af því tagi sem boðaðar eru í frumvarpinu á þeim stutta tíma sem nú er til stefnu. Þetta segi ég alveg óháð efni málsins og alveg óháð öðrum hugmyndum um stjórnarskrárbreytingar. Ég held bara að þegar við tökum afdrifaríkar ákvarðanir í þessum efnum eigum við að vanda til verka, við eigum að ræða hlutina vel, við eigum ekki að ana að neinu, við eigum ekki að gera neitt í fljótfærni.

Annað atriði sem ég vildi nefna er það að — sem tengist auðvitað þessum tíma — það er í rauninni mjög óljóst hver áform ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins eru í þessum efnum. Það er búið að gefa almenna yfirlýsingu um að koma eigi á fót stjórnlagaþingi. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram sína útfærslu, ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki kynnt sína útfærslu, við vitum ekki hvenær hún kemur. Við vitum ekki hvað þingið fær langan tíma til að fjalla um þau mál. Við vitum ekki hvort einhverjir fletir eru á því að ná samkomulagi um þau mál. Við vitum ekki hvaða tillögur um stjórnarskrárbreytingar verða þar aðrar en hugmynd um stjórnlagaþing.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan í því sambandi að það er eitthvað óskaplega órökrétt við það að ætla að fara að breyta einhverjum atriðum í stjórnarskránni, kannski þremur atriðum, núna í vor eins og ríkisstjórnin boðar, gera þrjár efnislegar breytingar á stjórnarskránni fyrir vorið og ætla svo á sama tíma að setja á fót stjórnlagaþing sem á að taka við völdum eftir kosningar og á að fara í heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem þýðir að þau atriði sem verða þá ákveðin í vor með hefðbundnum hætti, breytingar á stjórnarskránni, koma til endurskoðunar örfáum mánuðum síðar. Hvers virði eru þá þær breytingar sem gerðar yrðu fyrir kosningar í vor á stjórnarskránni? Hvers vegna ættum við að samþykkja slíkar breytingar þegar við erum hvort sem er að fara út í það að halda stjórnlagaþing, ef það verður ofan á?

Er ekki rétt, sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði, að það yrði hlutverk stjórnlagaþings að fara í heildarendurskoðun, það væri allt undir og Alþingi gæti ekki bundið hendur stjórnlagaþingsins? Það gæti tekið fyrir þau atriði stjórnarskrárinnar sem það vildi og gert þær breytingar sem það vildi. Það er eitthvert ósamræmi í þessu sem ég held að þeir sem tala fyrir þessum hugmyndum verði aðeins að átta sig á — þeir verða að gera okkur grein fyrir því hvernig þeir sjá samspil annars vegar efnislegra breytinga á stjórnarskránni í vor og hins vegar stjórnlagaþings sem á að taka til starfa annaðhvort 17. júní, eins og nefnt var hér áðan, eða þá síðar í sumar ef skilja má tillögu Framsóknarflokksins á þann veg. Þetta þarf einhvern veginn að komast á hreint.

Þar sem ég sé hv. þingflokksformann Samfylkingarinnar væri mjög fróðlegt ef hann gæti aðeins upplýst okkur um þetta vegna þess að við vitum að hann átti þátt í að semja verkefnaskrána þar sem þessa mótsögn er að finna, mótsögnina um það að annars vegar eigi að gera efnislegar breytingar, nefndar eru þrjár tilteknar efnislegar breytingar á stjórnarskránni sem eiga að samþykkjast fyrir vorið, og hins vegar séu áform um stjórnlagaþing sem taka eigi til starfa sem fyrst eftir kosningar og á að hafa heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar að markmiði. Ég vona að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, geti gert okkur grein fyrir því hér í umræðunni á eftir hvernig þetta er hugsað af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég ætla að lokum, herra forseti, að nefna nokkur efnisleg atriði sem ég tel að við þurfum að huga að ef niðurstaðan verður sú að þetta þing hefjist handa við að reyna að koma á fót stjórnlagaþingi. Í fyrsta lagi eru það lagatæknileg sjónarmið. Mér finnst það galli á þingmáli Framsóknarflokksins að gert er ráð fyrir alveg gríðarlega löngu stjórnarskrárákvæði. Ég tel að betur færi á því að hafa stutt og skýrt stjórnarskrárákvæði sem veitti heimild fyrir stjórnlagaþingi og útfærslan yrði síðan í almennum lögum.

Í öðru lagi vildi ég nefna að það þyrfti að skoða útfærsluna, t.d. varðandi fjölda þingfulltrúa. Ég tek undir þau sjónarmið sem komið hafa fram, mér fyndist eðlilegt að þeir yrðu færri. Ég mundi líka leggja til að áhugamenn um málið skoðuðu fjölda meðmælenda með frambjóðendum til stjórnlagaþings en mér finnst talan 300 afar lág í því sambandi og skapa hættu á að óskaplega margir bjóði sig fram til stjórnlagaþings, sem mundi gera kosninguna miklu erfiðari, dreifingu atkvæða meiri og skapa meiri hættu á að þeir sem verða kosnir til stjórnlagaþings hafi í rauninni frekar lítið umboð kjósenda á bak við sig vegna þess að atkvæðadreifingin er svo mikil.

Varðandi þann tíma sem þingið á að starfa verð ég að segja að mér finnst tillaga Framsóknarflokksins gera ráð fyrir allt of skömmum tíma til þess. Ef raunverulega er ætlunin að fara í grundvallarendurskoðun á stjórnarskránni þarf lengri tíma. Ég held að það þyrfti tíma fyrir fulltrúa á stjórnlagaþingi að fóta sig aðeins í því verkefni sem þeir hafa tekist á hendur. Ég held að það tæki þá tíma að fara yfir þau álitamál sem um er að ræða og ég held að það geti tekið töluverðan tíma fyrir 63 einstaklinga að koma sér saman um niðurstöðu í einhverju máli. Ég þekki það úr stjórnarskrárnefnd frá síðasta kjörtímabili að það var mjög erfitt fyrir 9 menn að ná saman um einhverja niðurstöðu, hvað þá 63. Ég bið menn að vanmeta það ekki að tilvist flokka á þingi er mjög oft til þess fallin að hjálpa mönnum að komast að niðurstöðu, einfalda samkomulag og þess háttar frekar en ef hver kemur fyrir sig með sínar hugmyndir og vill halda þeim fram. Ég bendi því á að verði þetta að veruleika tel ég að tíminn þyrfti að vera rýmri og kannski ætti ekki að setja nein skilyrði um tíma, kannski ætti bara að gefa stjórnlagaþinginu svigrúm, ef á annað borð er ákveðið að fara út í þetta ætti kannski bara að gefa stjórnlagaþinginu sjálfu svigrúm til að meta það hversu langan tíma það þyrfti til sinna starfa.

Ég vil að síðustu nefna það að mér finnst hugmyndin sem fram kemur í frumvarpinu, um það að verði tillögu stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu verði varafulltrúar kallaðir til til að taka við, mjög skrýtin. Þessi hugmyndafræði gengur út á það að það er þjóðin sem kýs fulltrúa sína og þeir sem ná kjöri eru þeir sem flest atkvæði fá og ég sé ekki að rök séu fyrir því að hinir sem fá miklu færri atkvæði eigi að taka við keflinu þegar þeir sem hafa miklu fleiri atkvæði og miklu meira lýðræðislegt umboð hafa sett fram tillögu sem ekki hlýtur náð fyrir augum þjóðarinnar.

Ég spyr líka: Hvað gerist ef þjóðaratkvæðagreiðsla fellir mál í annað sinn? Hvað gerist þá? (Gripið fram í.) Þá sitjum við uppi með óbreytta stjórnarskrá, stjórnlagaþing hefur lokið störfum og mál þess er þar með ónýtt. Ég varpa því til háttvirtra fulltrúa Framsóknarflokksins að þeir skýri aðeins hvernig þeir hafa hugsað þetta.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja að ég tel að góð rök geti verið til þess að gera tilteknar breytingar á stjórnarskránni og margt er þar sem mætti skýra og endurskoða. Ýmis ákvæði gætu átt þar heima sem ekki eru þar í dag. Ég held hins vegar að menn eigi að fara varlega í breytingar af þessu tagi og ég held að menn verði að hugsa sig vel um áður en menn fara út í gersamlega nýja aðferðafræði í miklum önnum hér á vorþingi þegar skammt er til kosninga.