136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að amast við þeirri yfirlýsingu frá núverandi hæstv. forseta sem vísað var til í andsvari hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Ég er bara ekki sammála því. Ég held að þingið hafi samkvæmt stjórnlögum, samkvæmt íslenskum stjórnlögum mjög mikið vald ef það vill beita því — ef það vill beita því. Völdin liggja hjá þinginu ef þingið vill beita þeim. Það er auðvitað undir okkur þingmönnum komið á hverjum tíma hvernig við beitum því valdi sem stjórnarskráin færir okkur.

Ég bendi á að þingið samkvæmt stjórnarskránni er langsterkasti aðili stjórnarfarsins, stjórnskipunarinnar, og ef þingið beitir valdi sínu getur það stýrt öðrum þáttum ríkisvaldsins. Það er alveg ljóst og um það á ekki að vera neinn ágreiningur. Hins vegar hefur það þróast þannig að (Forseti hringir.) þingið hefur ekki beitt því valdi sínu. Ég held að við getum breytt því með vinnubrögðum, (Forseti hringir.) breytt því með áherslum. Við þurfum ekki að snúa stjórnarskránni á hvolf til þess að gera það.