136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:10]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti ræða hv. þm. Birgis Ármannssonar einkennast af óþarflega miklum áhyggjum. Hann var mjög áhyggjufullur yfir þessu frumvarpi og þær áhyggjur birtust mjög í ræðu hv. þingmanns. Hann kom einnig við í verkefnaáætlun núverandi ríkisstjórnar og spurði tíðinda, hvernig á því stæði að þar væru viðraðar hugmyndir um stjórnlagaþing og hins vegar breytingar á þremur ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Ég held að hv. þingmaður hafi svarað eiginlega spurningum sínum sjálfur vegna þess að staðreyndin er sú að stjórnlagaþing má útfæra á ýmsan hátt. Hér hafa framsóknarmenn sýnt ákveðið frumkvæði með því að setja fram sínar hugmyndir og margt ágætt er í þeim. En eins og hv. þingmaður sagði þá er ekkert áhlaupaverk og ekkert hlaupið að því að breyta stjórnarskránni og ég get tekið undir með hv. þingmanni þegar hann segir að sex til átta mánuðir séu svona skemmri skírn.

Það má kannski segja sem svo að þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur um breytingar á stjórnarskránni og koma fram í verkefnaáætlun séu allt hugmyndir sem eru löngu útræddar. Hugmyndir um auðlindir í þjóðareign hafa verið ræddar í yfir tíu ár og nánast samþykktar af öllum þingflokkum. Það er svona efnisbreyting sem við höfum lagt til og hins vegar tvær breytingar sem eru annars vegar um að auðvelda almenningi að setja fram kröfu um að mál gangi til þjóðaratkvæðis og hins vegar um það hvernig samþykkja skuli stjórnarskrárbreytingar. Það er eðlilegt að ráðist sé í þetta strax. En það að breyta stjórnarskránni í heild sinni kann að taka miklu lengri tíma. Því er eðlilegt að ráðast í þetta strax enda er þverpólitísk samstaða um þetta og síðan að ganga til þess leiks að endurskoða stjórnarskrána sem ég (Forseti hringir.) tek undir að full ástæða sé til. En það segir sig sjálft að það liggur mikið á að gera þessar breytingar.