136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst andsvar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar vekja fleiri spurningar en það svaraði. (Gripið fram í.) Í fyrsta lagi velti ég því fyrir mér hvort skilja megi orð hans svo að hann sé ósammála hugmyndum framsóknarmanna um að láta stjórnlagaþingið starfa aðeins í sex til átta mánuði sem hefur komið skýrt fram af hálfu flutningsmanna málsins að þeir telja mjög mikilvægt til þess að setja stjórnlagaþinginu þröngar tímaskorður.

Ég spyr vegna þess að mér finnst enn þá mjög torskilið hvers vegna ráðast eigi í tilteknar efnislegar breytingar á stjórnarskránni nú fyrir vorið — nefndar eru þrjár tilteknar efnislegar breytingar á stjórnarskránni — en síðan að setja á fót stjórnlagaþing sem á að hafa það að hlutverki og á að hafa frjálsar hendur um heildarendurskoðun stjórnarskrár. Ég fæ þetta bara ekki til að ganga upp.