136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:14]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað geta sjálfstæðismenn hér á þingi leikið sér að því að hártoga aukaatriði, hvort stjórnlagaþing starfar í sex mánuði eða tólf eða að hugsanlega þurfi lengri tíma. Það er ekki kjarninn í þessari umræðu. (Gripið fram í.)

Hitt er hins vegar mjög athyglisvert, þ.e. að hv. þingmaður virðist vera annars vegar andvígur því að gerðar verði eðlilegar breytingar á stjórnarskránni, sem þegar hafa verið ræddar jafnvel í áratug þar sem allir flokkar hafa verið samstiga. Hv. þingmaður virðist vera á móti því og hv. þingmaður virðist einnig vera á móti því að sett verði á laggirnar stjórnlagaþing. Því er eðlilegt að maður spyrji: Hvernig sér hv. þingmaður hlutina geta breyst því eins og hér hefur komið fram þá hefur gengið mjög erfiðlega að ná fram stórum breytingum á stjórnarskránni á Alþingi? Það er ákveðin krafa um breytingar og ég held að það sé eðlilegt að við látum á það reyna hvort samstaða náist um að gera stórar breytingar á stjórnskipuninni (Forseti hringir.) núna í kjölfar þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram.