136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hv. þingmaður ekki útskýra nægilega vel fyrir mér hvernig á því stendur að fara eigi í efnislegar breytingar nú fyrir vorið á sama tíma og sett er á fót stjórnlagaþing sem á að framkvæma heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Mér finnst það óskiljanlegt viðhorf nema hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafi enga trú á því að stjórnlagaþingið muni ná því markmiði að endurskoða stjórnarskrána. Honum væri ekki svona mikið í mun að gera þessar tilteknu breytingar fyrir vorið ef hann hefði raunverulega trú á stjórnlagaþingi og teldi að stjórnlagaþingsfulltrúar ættu sjálfir að ákveða öll atriði stjórnarskrárinnar. Þá mundi hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sjá að engin þörf er á að gera tilteknar breytingar fyrir stjórnarskrána fyrir kannski nokkurra mánaða gildistíma ef stjórnlagaþingið tæki síðan einhverja aðra afstöðu þegar það kemur saman.