136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:33]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að hlutverk stjórnmálaflokka er að koma fram með hugmyndir. Til þess eru þeir stofnaðir. Hlutverk þeirra er að vera hópur fólks sem vinnur saman að því að móta hugmyndir, setja þær fram og bjóða sig fram til að tala fyrir þeim. Það er hlutverk stjórnmálaflokkanna. Þess vegna finnst mér einkennilegt að málið skuli grundvallast á því að endurbæturnar séu fólgnar í því að setja stjórnmálaflokkana til hliðar. Það er þá verið að segja að kerfið allt sé hrunið eða ónýtt, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði.

Ég er ekki sammála því að stjórnarskráin sé úrelt en það eru gallar í kerfinu, því er ég sammála og hef látið koma fram hér í gegnum árin með frumvarpsflutningi og því að tala fyrir sjónarmiðum sem ganga jafnvel gegn vilja forustu stjórnmálaflokkanna. Mér finnst að þingmenn eigi að hafa þá staðfestu að taka það sem þeir telja rétt fram yfir það sem forustan vill, ef í odda skerst. Það er nákvæmlega það sem stjórnarskráin gerir, svo ég taki nú þann þátt málsins sem málið fjallar um, og mikill kostur er í gildandi stjórnarskrá að þingmaðurinn hefur allan rétt í málinu, flokkurinn getur ekki sett honum neinar skorður, hvorki til eða frá. Þannig á það að vera að þingmaðurinn sé einungis bundinn sjálfum sér ef í odda skerst, það er besta tryggingin sem við höfum og við eigum ekki að breyta því, (Gripið fram í.) virðulegi forseti.