136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[16:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ræðu hv. þm. Helgu Sigrúnar Harðardóttur komu fram ýmis sjónarmið og má taka undir sum þeirra, sérstaklega hvað varðar ýmsar efnisbreytingar á stjórnarskránni sem vissulega þarf að veita athygli. Ég minni samt hv. þm. Helgu Sigrúnu Harðardóttur, sem sér miklum ofsjónum yfir ofurvaldi Sjálfstæðisflokksins, að við erum ekki lengur í ríkisstjórn, sjálfstæðismenn, og höfum því ekki þau völd hér sem við vildum. Ég minni líka á að það verða kosningar 25. apríl, að öllum líkindum, þar sem þjóðin fær tækifæri til að velja menn og flokka til að sitja á Alþingi og í því kjöri mun þá endurspeglast hvaða áherslur þjóðin vill. Þess vegna held ég að ástæðulaust sé fyrir hv. þm. Helgu Sigrúnu Harðardóttur að ímynda sér, ef raunverulegur víðtækur áhugi er hjá þjóðinni á því að sett verði á fót stjórnlagaþing, að sú hugmynd deyi ef málið frestast fram yfir alþingiskosningar. Þá er hún að ímynda sér að þeir sem kjörnir verða á þing 25. apríl muni ekki endurspegla vilja þjóðarinnar og þá spyr ég: Hvers vegna? Hvað kemur hv. þingmanni til að ætla að þeir sem kosnir verða á þing 25. apríl muni ekki endurspegla vilja þjóðarinnar á því hvort menn vilji hafa stjórnlagaþing eða ekki?

Að lokum vil ég spyrja hv. þm. Helgu Sigrúnu Harðardóttur hvort hún telji að ástæða sé til að gera efnislegar breytingar á stjórnarskránni fyrir vorið ef efnt verður til stjórnlagaþings þegar að kosningum loknum.