136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:02]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna að hv. þm. Pétur Blöndal er ein af þessum perlum sem ég talaði um áðan sem tilheyra þó Sjálfstæðisflokknum. Hann átti nú einn og sjálfur kannski ekki alveg skilið allt það sem ég sagði því að hann hefur skorið sig dálítið úr þeim hópi svo maður sé sanngjarn í umfjöllun um sjálfstæðismenn eins og aðra. (Gripið fram í.) Pétur minn, þú ert dásamlegur.

Varðandi 79. gr. verð ég að viðurkenna að ég næ því ekki alveg hvað hv. þingmaður er að fara, það væri gott að fá hann til að útskýra það pínulítið betur. Ef ég skil hann rétt telur hann að ekki sé hægt að samþykkja þetta frumvarp núna, svo yrði náttúrlega að boða til kosninga og við kjósum 25. apríl og svo þarf nýtt þing að samþykkja þetta frumvarp á nýjan leik til að það verði að veruleika og taki gildi. Um hvað snýst þá málið? (KHG: Það … kjósa samhliða … stjórnlagaþing.) Ég verð að fá hv. þingmann til að útskýra það aðeins betur.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að þeir virði ávörp sem tíðkast hér í þinginu.)