136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir mjög ánægjulegt að vera perla — meðan ég er ekki perlufesti.

Þessi 79. gr. segir fyrir um það hvernig eigi að breyta stjórnarskrá. Ef við ætlum að bera virðingu fyrir stjórnarskrám yfirleitt verðum við að virða ákvæðið, fara í gegnum það ferli og setja nýtt ákvæði í stjórnarskrána um það að þjóðaratkvæðagreiðsla breyti stjórnarskrá. Þá þarf að vera ákvæði um það hvernig sú þjóðaratkvæðagreiðsla eigi sér stað, hversu stór meiri hluti þurfi að vera o.s.frv. þannig að í vor þurfum við að samþykkja breytingu á stjórnarskránni í þessa veru.

Ég er mjög hlynntur stjórnlagaþingi, ég er mjög hlynntur nýrri stjórnarskrá svo það sé alveg á tæru. En við verðum að bera þá virðingu fyrir stjórnarskránni að fara þessa leið. Við getum samþykkt í vor þá breytingu á 79. gr. að þjóðaratkvæðagreiðsla breyti stjórnarskrá. Jafnframt getum við samþykkt lög um stjórnlagaþing, það er allt í lagi. En það má ekki taka gildi fyrr en nýtt Alþingi er búið að samþykkja þetta ákvæði, þessa breytingu á 79. gr., og búið að rjúfa þing aftur. Lýðræðið bara kostar þetta og menn þurfa að horfast í augu við það. Ef þeir ætla ekki að gera það, ef þeir ætla að gera eins og frumvarp framsóknarmanna gerir ráð fyrir, að hafa nýtt stjórnlagaþing og það bara setji nýja stjórnarskrá sisona er verið að segja fólki, mér og öllum öðrum, að það sé bara ekkert að marka stjórnarskrár, það sé hægt að taka þær úr gildi eins og ekkert sé og að það ákvæði sem stendur þarna í 79. gr. sé ekkert að marka, bara allt í plati.

Ég hef svarið eið að stjórnarskránni sem og aðrir þingmenn. Ég get ekki annað en farið eftir ákvæðum hennar.