136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég gerði athugasemdir við í máli mínu var fyrst og fremst að nú hafa menn fundið upp einhverja nýja leið til að nálgast breytingar á stjórnarskránni. Ég gerði athugasemdir við að menn hafa horfið frá því að leita samráðs stjórnmálaflokka við breytingar á stjórnarskrá. Þetta er grundvallaratriði. Vel getur verið að Framsóknarflokknum þyki sú hugmynd að búa til stjórnlagaþing fín. (Gripið fram í.) Ekkert samráð hefur verið haft við aðra flokka um þá aðferðafræði, (Gripið fram í.) heldur var það einungis skilyrði fyrir því að verja ríkisstjórnina vantrausti að samþykkt var að þetta kæmist á dagskrá á þinginu. Það er undir þeim formerkjum sem við ræðum þetta hér. Ég geri athugasemdir við það að við skulum undir þessum kringumstæðum ræða jafnstórt mál og það sem er til umfjöllunar vegna þess, eins og ég sagði áðan, að ég hef enga sannfæringu fyrir því að stjórnarflokkarnir tveir ætli að styðja þetta mál. Þeir gera það ekki í orði kveðnu í þingsalnum. Þeir koma ekki hingað upp og fagna fram komnu máli eða gefa til kynna með nokkrum hætti að þeir styðji það. Þetta er vandamál sem Framsóknarflokkurinn hlýtur að horfast í augu við. Það er engin breið samstaða um málið. Þannig er það.

Ég tala ekki fyrir því að við stöndum í vegi fyrir öllum breytingum á stjórnarskránni. Ég held að það hafi komist ágætlega til skila hjá mér að ég tel að þörf sé á slíkum breytingum. En við erum að ræða um formið í dag og ég verð að lýsa mig ósammála þeim sem treysta ekki löggjafarsamkundunni til að leysa þann vanda sem við blasir, þ. e. að það þurfi að taka til og skýra ýmis ákvæði í stjórnarskránni. Ég treysti löggjafarsamkundunni ágætlega til þess. Ég nefndi dæmi um breytingu á stjórnarskránni sem ætti að vera til þess fallin að liðka fyrir að slíkar breytingar nái fram að ganga.