136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:27]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn viljum að sjálfsögðu hafa samráð þegar um er að ræða breytingar á stjórnarskránni. En þegar við tölum um að við ætlum að láta þjóðina ráða þá þýðir það að við ætlum að láta þjóðina ráða. Það þýðir ekki að koma hér fram og fullyrða að ekki sé breið samstaða um þetta á þingi. Þetta er í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Þetta er reyndar eitt af skilyrðum okkar, það er alveg rétt. Skilyrði eru skilyrði og við ætlumst til að þetta fari í gegn. Það er í sjálfu sér ótrúlegt að standa í þessum ræðustól eftir allt sem hefur á undan gengið, eftir óeirðirnar hér úti á Austurvelli þar sem þjóðin krafðist þess að hér yrðu viðhöfð vönduð vinnubrögð. Það þarf að breyta þessum vinnubrögðum. Eru menn ekki sammála um það? Hvað hefur verið gert á undanförnum (Forseti hringir.) áratugum til að breyta þessum vinnubrögðum? Akkúrat ekki neitt og þar hafa sjálfstæðismenn (Forseti hringir.) fyrst og fremst verið við stjórnvölinn. (Gripið fram í.)

(Forseti (RR): Forseti biður þingmenn að virða þá tímalengd (Gripið fram í.) sem þeir hafa í ræðustól í andsvörum. )