136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í hvert einasta sinn sem menn hafa komið fram með breytingartillögur til breytinga á stjórnarskránni þá hefur farið af stað umræða í þinginu um mikilvægi þess að menn hafi samráð um slíkar tillögur. Það er engin ástæða til að furða sig á því. Það er rangt sem sagt er hér og hv. þingmaður vék að í andsvari sínu, að ég sé að tala fyrir því að engu megi breyta. Ég skal segja það í fjórða eða fimmta sinn: Ég er þeirrar skoðunar að margt þurfi að laga í stjórnarskránni og að henni þurfi að breyta. Það þurfi að taka til í ýmsum ákvæðum hennar og skýra ýmislegt. Við erum að fjalla um það — (BJJ: En ekki stjórnlagaþing?) við erum ekki að fjalla um þessi efnisatriði, við erum að fjalla um formið. (RR: Við vorum að tala um form.) Hér var vikið að sjónarmiðum Eiríks Tómassonar prófessors við háskólann. Ég ætla að taka það fyrst fram: Ég treysti líka sérfræðingum. Ég treysti háskólaprófessorum og ég treysti öðrum sérfræðingum. Ég starfaði með þessum aðilum öllum saman í stjórnarskrárnefndinni og það er látið að því liggja að með því að hafa í frammi athugasemdir við þetta frumvarp vilji maður ekki treysta sérfræðingum til ráðgjafar við breytingar á stjórnarskránni. Hvers konar þvættingur er þetta? (BJJ: Það er bara þingið sem má það.) Þetta er bara alger þvættingur. Það er þingið sem stýrir umræðum um breytingar á stjórnarskránni, teflir þeim fram, að sjálfsögðu í samræmi við færustu sérfræðinga á því sviði. Að sjálfsögðu eftir slíkt samráð.

Við erum að tala um formið. Eiríkur Tómasson styður þetta frumvarp. Það er fínt. Hann hefur sínar skýringar á því. Hverjar eru helstu röksemdir hans fyrir að styðja þetta mál? Jú, hann hefur vakið athygli á því að þinginu hefur gengið illa að koma í gegn breytingartillögum. Þinginu hefur ekki gengið nægilega vel að sammælast um einstakar breytingartillögur og ég vék að því áðan. Það er leið út úr þeirri stöðu og hún felst í því að taka til umfjöllunar tillögur stjórnarskrárnefndarinnar eins og þær komu fram fyrir tveimur árum síðan.