136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að allar ábendingar um efnislegar breytingar á stjórnarskránni sem verið er að vísa til í umræðunni eru utan efnissviðs þessa frumvarps. Við erum bara að tala um formið. Umræðan í dag og um þetta tiltekna (BJJ: Þú ert á móti forminu.) frumvarp snýst um formbreytingar á stjórnarskránni, þ.e. hvernig berum við okkur að. Það er látið að því liggja að vegna þess að maður fellst ekki umyrðalaust á tillögu Framsóknar í því efni þá sé maður á móti öllum efnisbreytingum á stjórnarskránni. Þetta er rangt. Ég mótmæli því að Sjálfstæðisflokkurinn standi í vegi fyrir tiltektum, lagfæringum og skýringum á stjórnarskránni. Við höfum ávallt sagt að þörf væri á slíku. Við höfum tekið þátt í slíku starfi í samstarfi við aðra flokka og ég vil bara nota þetta tækifæri til að harma það einu sinni enn að menn ætli að æða fram með breytingar af þessum toga án þess einu sinni að leita samráðs við (Forseti hringir.) aðra stjórnmálaflokka um það hvernig við eigum að bera okkur að við jafnmikilvæg mál.