136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[18:22]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er satt að segja mjög erfitt að ræða við þennan hv. þingmann og rökræða við hana hér vegna þess að þingmaðurinn veður alltaf þennan sama reyk um að stjórnarskránni hafi ekki verið breytt í 65 ár. Það er margbúið að fara yfir það í dag í þessari umræðu hvaða breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni á þessum 65 árum sem liðin eru frá því að stjórnarskráin varð til.

Þó að þær breytingar sem hv. þingmaður óskar eftir að verði hafi ekki orðið, þýðir það ekki að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komið í veg fyrir breytingar í 65 ár. Þessi málflutningur er svo dæmalaus og ómálefnalegur að hann dæmir sig sjálfur.

Það er fjarri lagi að kenna stjórnarskránni um bankahrunið eða þann vanda á fjármálamarkaði í veröldinni sem við glímum nú við. Það er nú mjög langsótt satt að segja. Framsóknarflokkurinn finnur þetta hálmstrá í vandræðum sínum þegar hann er að skipta um kennitölu í íslenskri pólitík og reynir þá að kalla til þjóðina með því að velja 63, væntanlega prófessora frá háskólanum, til þess að setja nýja stjórnarskrá. Það er mjög ótrúverðugt.

Ég held að þjóðin sjái í gegnum þetta hjá framsóknarmönnum og muni átta sig á því að þarna eru nýju fötin keisarans hjá Framsóknarflokknum í öllu sínu veldi. Að minnast á fjölmiðlafrumvarpið í þessu samhengi — auðvitað væri hægt að halda langa ræðu um það. Auðvitað áttum við að setja (Forseti hringir.) löggjöf um fjölmiðla eins og að var stefnt. (Forseti hringir.) En því miður fór sem fór. (Forseti hringir.)