136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[18:26]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Dreifing valdsins í samfélaginu hefur í aðalatriðum verið ein af kennisetningum og hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, valddreifing og það að tryggja framgang og afl einstaklingsins. Það kemur því úr hörðustu átt að Framsóknarflokkurinn, sem hefur viljað rata í allt aðrar áttir, skuli nú gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn.

En hvað um það. Ég vil bara undirstrika og endurtaka að það er mikill misskilningur hjá framsóknarmönnum, hv. þingmanni, að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið gegn breytingum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forustu fyrir þeirri miklu uppbyggingarbyltingu sem orðið hefur á Íslandi, m.a. með framsóknarmönnum, þó að nú syrti í álinn um sinn. Framsóknarmenn hafa til skamms tíma viljað gera mjög mikið úr því að þeir hafi haft býsna mikið til málanna að leggja í gegnum tíðina.

En hin nýja forusta Framsóknarflokksins virðist reyna að afneita öllu sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir á undangengnum árum og áratugum í íslensku samfélagi í þeirri von að þjóðin upplifi það sem svo að upp sé risinn nýr Framsóknarflokkur sem geti hent öllu aftur fyrir sig sem gamli Framsóknarflokkurinn hefur gert.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur mikla áherslu á að við vinnum vel að þessu máli og við vinnum þannig að breytingum á stjórnarskránni að það sé gert af yfirvegun og að vel athuguðu máli.