136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[19:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér eins og oft áður kjör þingmanna um nætur en það hefur oft verið áður. Hér er hins vegar um að ræða jákvæða breytingu og ég vil undirstrika það, svo að fjölmiðlar fari ekki að misskilja það eins og annað sem ég segi, að ég er mjög hlynntur þessu frumvarpi, mér finnst það jákvætt. Hins vegar er lagasetningin, og þá er ég bara að fara í gegnum tæknina, ljót. Einhver lög eru felld úr gildi en samt gilda þau fyrir ákveðinn hóp, það er spurning hvernig menn fletta upp í lagasafninu í framtíðinni til þess að fá að vita þetta.

En það sem ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra um eru í fyrsta lagi útreikningar fjármálaráðuneytisins, ráðuneytis hans, þ.e. að sparnaðurinn verði 1,6 milljarðar á fjórum árum. Ef maður deilir í það með fjórum og síðan með 63 eru þetta um 6 millj. kr. á mann. Þetta er sem sagt svipað og laun þingmanna. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum getur þetta staðist? Eru réttindin þá jafnmikils virði og launin.

Svo ætla ég að spyrja að öðru sem er kannski öllu alvarlegra. Nú hafa almennu lífeyrissjóðirnir orðið fyrir miklum áföllum. Ég flyt einmitt frumvarp hér á Alþingi um að þingmenn skuli njóta sams konar réttinda og almennir launþegar í landinu, ekki eins og forréttindahópurinn sem er hjá ríkinu. Og almennir launþegar þurfa að fara að skerða lífeyrinn, mjög líklega jafnvel í apríl, og sumir í haust. Lífeyrissjóður bænda ríður sennilega á vaðið.

Hvernig lítur það út frá sjónarhorni hæstv. ráðherra þegar þessi réttindi eru pikkföst og iðgjaldið til ríkisins þarf að hækka vegna þess hvernig stjórnin fór með fjármunina? Á sama tíma þarf að skerða hjá almenningi sem borgar hækkunina til þingmanna og annarra opinberra starfsmanna með sköttum sínum. Hvernig gengur svona réttlæti upp? En ég vil taka það fram að ég er hlynntur frumvarpinu.