136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[20:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafna því að bornar séu á borð einhverjar rangfærslur eða einhver ósannindi í greinargerð með þessu frumvarpi eða í framsöguræðu minni. Þar tók ég reyndar skýrt fram að þessi lög væru að stofni til eldri, úr mismunandi sérlögum sem næðu langt aftur í tímann og voru í gildi þegar ég tók sæti og hóf hér störf fyrir margt löngu. Þetta er arfur frá gömlum tíma sem við erum vonandi að leggja til grafar.

Laun þingmanna og ráðherra eru núna ákvörðuð af sérlögum sem sett voru, ef ég man rétt, rétt fyrir áramótin og festa þau. Kjararáð hefur á grundvelli þeirra laga þegar lækkað laun þingmanna og ráðherra og er, ef ég veit rétt, að undirbúa úrskurð eða vinna að því að lækka aðra embættismenn sem undir það heyra. Það er rétt að hafa það í huga þegar menn bera hér saman launatölur við skrifstofustjóra í ráðuneytum sem ég hef ekki samið um kaup við á þeim rúma hálfa mánuði sem ég hef verið þar við störf þótt ætla mætti það kannski af ræðu hv. þingmanns hér áðan.

Það má sjálfsagt segja að að einhverju leyti geti virðing Alþingis birst þjóðinni eða átt að vera fólgin í því að menn meti starfið svo mikilvægt að þingmönnum séu greidd mjög rífleg laun eins og ráða mátti af ræðu síðasta ræðumanns. Ég er ekki viss um að það sé vænlegasta leiðin til að auka traust á Alþingi og ná betri sáttum milli þings og þjóðar að hækka bara launin hjá þingmönnum eða hafa þau mjög rífleg. Ég held að vænlegra sé að þingið starfi í góðri sátt við þjóðina, sé í takt við hana og tíðarandann og aðstæður eins og þær breytast á hverjum tíma. Fyrst og síðast þarf þó þingið að afla sér virðingar með verkum sínum, með vönduðum vinnubrögðum og heiðarlegum og uppbyggilegum málflutningi.