136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[20:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Annars vegar ítreka ég það sem ég sagði áðan, kjararáði var falin með lögum sem hér voru samþykkt fyrir jól sú leiðsögn að gera þær breytingar á launum þeirra sem undir það heyra. Það er væntanlega í vændum að kjararáðið ljúki störfum á grundvelli þeirra laga og þess skammt að bíða að sú launalækkun sem þar var settur rammi um gangi yfir þann hóp allan sem undir þau lög heyra.

Ég held að rétt sé að hafa það í huga að útreikningarnir sem hér er um að ræða eru framreiknaðar skuldbindingar ríkisins eins og þær eru metnar með tilliti til framtíðar á hverjum tíma út frá þeim réttindum sem gilda. Á þeim grunni eru þessar tölur byggðar. Að öðru leyti vísa ég í það sem ég áður sagði hér í andsvari við hv. þm. Pétur Blöndal, þetta er unnið af fagaðilum undir handarjaðri fjármálaráðuneytisins, tryggingastærðfræðileg úttekt liggur þarna til grundvallar og ef menn hafa fagþekkingu til þess að vefengja hana er að sjálfsögðu rétt og skylt að taka slíka hluti til skoðunar. Ég legg þá til að hv. efnahags- og skattanefnd geri það og fari yfir þessa útreikninga.

Ég bendi á að það er þá fyrst og fremst óvissa um það hve mikið og hve hratt þessar skuldbindingar lækka. Um hitt verður tæpast deilt að hér er um að ræða verulega léttingu á skuldbindingum ríkissjóðs til framtíðar litið.