136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[20:22]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra sé reiðubúinn að láta af hendi þessa útreikninga þannig að þingmenn geti kynnt sér þá. Þá er rétt að bíða og sjá þar til það liggur fyrir og menn hafa farið yfir þá útreikninga.

Af gamalli og langri reynslu af viðskiptum við fjármálaráðuneytið veit ég að embættismönnum þar hefur verið uppálagt í gegnum tíðina af sínum ráðherra að reikna eftir þeirri forskrift sem ráðherrann telur að henti best sínum málstað. Maður hefur lært að taka með varúð þá útreikninga sem þaðan koma vegna þeirra forsendna sem menn gjarnan smíða sér til að fá hentugar niðurstöður.

Ég vil, virðulegi forseti, aðeins víkja að einu sem fram kom í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég er alveg sammála að það er ekki sannleikur og réttlæti fólgið í því að vera í því kerfi sem opinberir starfsmenn eru í. Í því kerfi fá 20% ævinlega réttindi sín tryggð, sama hvað á dynur, og kostnaðurinn við að standa undir því er lagður á hin 80%. Ég er alveg undrandi á formanni BSRB að kalla ekki eftir því réttlæti að þessir launþegahópar séu á sambærilegum kjörum. Til dæmis kom fram í grein í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum að 220 milljarða vantaði inn í sjóðina hjá opinberum starfsmönnum til að standa undir réttindunum. Í annarri frétt kemur fram að eigið fé sjóðsins yrði uppurið árið 2025 þrátt fyrir að á árunum þar áður hafi verið greiddir rúmlega 100 milljarðar kr. inn í ríkissjóð umfram skuldbindingar. Við erum í kerfi sem á eftir að leggja þungar byrðar á aðra skattgreiðendur en þá sem eru í þessu kerfi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.