136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man eftir því á haustdögum rétt fyrir jól árið 2003 þegar þingflokkur hv. þingmanns sem kom hér síðastur upp og greiddi atkvæði í öllum jólalitunum, gulur, rauður, grænn, vegna þess að þeir voru algjörlega splundraðir eins og höfuðlaus her í afstöðu sinni til málsins. (Gripið fram í.)

Mín afstaða hefur alltaf legið fyrir, sem hv. þingmaður kallar hér eftir. Það á ekki að gera breytingar á heildarkjörum þingmanna, hvort sem varðar þingfararkaup þeirra eða eftirlaunaréttindi, án þess að málið sé skoðað í einhverju samhengi. Það er mín skoðun og hefur alltaf verið.

Ég mælti fyrir því hér sem formaður allsherjarnefndar á sínum tíma að ákvörðun í þessu efni yrði send til kjararáðs og ég er enn þá þeirrar skoðunar að það sé afar óheppilegt að þingið sé að fjalla um þetta vegna þess að þetta verður kapphlaup niður á botninn, alltaf endalaust. Sá sem býður lægra en sá sem mælti síðast í ræðustól nýtur meiri vinsælda hjá þjóðinni. Það hefur sýnt sig að við höfum verið að keppast við að draga úr kjörum þingmanna undanfarin ár. Eftir því sem þau hafa verið meira í umræðunni hjá almenningi höfum við brugðist við með því að ganga stanslaust á réttindi þeirra hvort sem er með því að lækka þingfararkaupið eða að draga úr eftirlaunaréttindunum.

Ég er þeirrar skoðunar að réttindaávinnsla — það eru gild rök til þess að réttindaávinnsla þeirra sé hraðari en almennt tíðkast en þá verður að horfa til þess í öðrum kjörum þingmanna, t.d. í þingfararkaupinu. Sé tryggt að það sé gert hef ég ekki athugasemdir við að menn horfi til þess að það starf sem menn taka að sér hér sé fyrir margra hluta sakir sérstakt og það geti réttlætt aðra réttindaávinnslu í lífeyrisréttindum en almennt gildir.

Vilji menn fara hina leiðina, sem hér er verið að mæla fyrir, þ.e. að hún sé sambærileg því sem almennt gildir, vil ég bara gera þá kröfu að menn ræði það samhliða hvort þannig sé litið á að ástæða sé til þess að skerða heildarkjör þingmanna eða hvort menn eru alveg sérstaklega að leggja sig fram við að draga úr, ekki bara réttindum heldur líka (Forseti hringir.) þingfararkaupinu. Það er sem sagt alveg sérstakt kappsmál að draga úr kjörum þeirra (Forseti hringir.) sem málið fjallar um.