136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:05]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var nokkuð löng ræða en ég held að meiningin sé skýr ef maður dregur hana saman og reynir að beita bókmenntalegum skýringaraðferðum á ræðuna. Þingmaðurinn stendur gegn þessu frumvarpi vegna þess að hann telur að réttindaávinnsla þingmanna, og ráðherra fyrst og fremst auðvitað — því málið fjallar í rauninni fyrst og fremst um ráðherra, sem það gerði 2003, þann rétt sem fram kom áðan í máli þingmannsins að þingmenn sjálfir, þ.e. þeir sem ekki voru ráðherrar högnuðust sáralítið á þessu og mismunandi hvað mikið — eigi að vera mun og miklu hraðari en réttindaávinnsla almennra opinberra starfsmanna, sem aftur hafa mun hraðari réttindaávinnslu og betri lífeyriskjör en fólk á almennum markaði.

Það er ágætt að vita það þá klárlega að hv. þm. Bjarni Benediktsson, sá sem talaði áðan, ætlar að greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi á þeim forsendum. Að viti hv. þingmanns má því aðeins skerða þessi réttindi að þau verði bætt upp í kjörum hans þannig að hann geti í séreignarsjóði eða einhverjum almennum og frjálsum lífeyrissjóðum, sem vonandi fjárfesta ekki fé sitt í Sjóð 9 hjá félögum hans í Sjálfstæðisflokknum, varðveitt það og eflt með þeim hætti.

Spurningin er auðvitað sú, ef Bjarni Benediktsson er einhverrar annarrar skoðunar: Af hverju greiddi hann atkvæði á þann hátt sem hann gerði árið 2003? Því hefur þingmaðurinn eiginlega ekki svarað enn þá.