136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[21:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held í sannleika sagt að við þurfum náttúrlega miklu meiri tíma en andsvör hér á þingi ef við viljum fara út í að ræða lífeyrissjóðamálin almennt og sambúð almenna kerfisins og hins opinbera. Ég verð segja alveg eins og er að mér finnst menn fjalla dálítið léttúðugt um þá staðreynd að lífeyrissjóðakerfi okkar hefur byggst upp með þessum tvískipta hætti á löngum tíma og fyrir því eru ýmsar sögulegar ástæður. Menn skulu hafa í huga að opinberir starfsmenn eru líka hluti þjóðarinnar. (PHB: 20%.) Já, það munar nú kannski um minna en fimmtung vinnumarkaðarins. Við skulum líka hafa í huga að lífeyrisréttindi þessa hóps hafa verið hluti af umsömdum kjörum þeirra um áratugaskeið og menn eiga að sýna þeirri sögu sanngirni. Það var almennt viðurkennt á löngu árabili að opinberir starfsmenn sættu sig við lakari launakjör en ella væri og fengu í staðinn kannski meira starfsöryggi og meiri ávinnslu lífeyrisréttinda. Þetta er veruleiki. Þetta eru sögulegar staðreyndir sem við þurrkum ekki út þó að menn fari hér mikinn í því að tala um samræmi eða að jafna kjör. Að sjálfsögðu er það þáttur sem líka er eðlilegt að horfa til en við þurrkum ekki út forsögu málsins með því og verðum að sýna því virðingu að svona hefur þessi staða orðið til. Og mér finnst að hv. þingmaður eigi að gera það eins og allir aðrir af því að hann er vel að sér um þessi mál.

Svo er það líka alltaf spurningin í hvaða aðstæðum við erum og hvernig við ætlum þá að jafna réttindin. Verða þau jöfnuð alfarið niður á við eða að einhverju leyti upp á við hjá öðrum? Staðan er auðvitað ekki beysin til að horfa til þeirrar leiðar í augnablikinu. Það er alveg augljóst eins og lífeyrissjóðakerfið er að verða fyrir skakkaföllum þessa dagana. En þetta er forsaga málsins sem mér finnst að hafa eigi í huga og (Forseti hringir.) hafa í heiðri þegar við ræðum um þessi mál.